Formennska í fastanefndum þingsins

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 10:35:23 (38)

1999-06-10 10:35:23# 124. lþ. 2.91 fundur 19#B formennska í fastanefndum þingsins# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[10:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir gagnrýni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og að sjálfsögðu höfum við komið þessari gagnrýni á framfæri við forseta á fundi með honum og þar áður á fundi starfandi þingflokksformanna meðan ekki var búið að kjósa á Alþingi forseta Alþingis.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur að samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu hafa orðið óvinsamlegri með þeim tilskipunum sem hafa ráðið hér í samskiptum og að okkur er tilkynnt í gegnum fjölmiðla hvernig farið verði með mál í þinginu. Við heyrum í fréttum að stjórnarliðið ætli sjálft að hafa formennsku í öllum nefndum og svo hefur komið í ljós að það á jafnframt við um varaformennsku. Okkur er gert alveg ljóst hver ræður og ég er fremur hrygg yfir því en reið hvernig þetta hefur gerst.

Mér finnst það vera algerlega í lausu lofti hvernig á að þróa það samstarf sem við byrjuðum á á síðasta kjörtímabili um stjórn þingsins þar sem við vildum ná því markmiði að stjórn og stjórnarandstaða sameinuðust um ábyrgð á þinginu.

Það er líka umhugsunarefni hver þáttur stjórnarandstöðu hefur verið hér á Alþingi og ekki síst í nefndum þingsins. Það er nefnilega þannig að það hefur verið meira um það á liðnu kjörtímabili en nokkru sinni áður að nefndir hafa þess vegna verið löglegar í störfum sínum að stjórnarandstaðan hefur mætt vel. Þetta vita forsetar, fyrrverandi og núverandi. Þannig var það líka og er okkur umhugsunarefni á þessum morgni þegar ég, t.d. í þeirri nefnd sem ég hef verið kjörin til, lýsti því yfir að þar sem menn hefðu ráðið málum með þessum hætti hefðum við ekki afskipti af því hvernig stjórnarkjöri yrði háttað. Það var líka umhugsunarefni fyrir þá stjórn sem var valin að það skyldi vera með þremur atkvæðum. Það er umhugsunarefni að þáttur stjórnarandstöðu er mikill í störfum á Alþingi. Stjórnarandstaðan er öflug í vinnunni í þingsalnum og mjög öflug í nefndastörfum á Alþingi. Þetta er okkur öllum umhugsunarefni.