Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 10:53:54 (41)

1999-06-10 10:53:54# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[10:53]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því orðalagi sem ég viðhafði hér vegna athugasemda hv. 3. þm. Norðurl. e. Ég sagði á þá leið að í reynd hlýtur ályktun síðara þings að vera bundin af þessu tvennu, að staðfesta frv. eða synja því, því að ég lít þannig til að breytingar mundu nánast þýða synjun ef þær yrðu samþykktar, vegna þess að þá yrði að mínu viti innan 45 daga að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga um málið.

Ég vek líka athygli á því að meginmarkmiðið með því fyrirkomulagi sem við höfum, að mál skuli afgreidd eftir kosningar á tvennum þingum, er auðvitað það að frambjóðendur geti gert þetta mál að meginmáli í kosningum, kjósi þeir svo. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þetta mál hafi ekki verið meginmál neins stjórnmálaflokks í kosningum heldur hafi verið um það bærileg sátt. Ég verð þó að viðurkenna það að þegar ég fór um landið varð ég var við að víða voru menn misánægðir. Það vissum við öll. En þetta var ekki meginmál í kosningunum. Að því leyti til held ég að það sé í reynd svo að málið er hér ekki til efnislegrar meðferðar, að menn fari ekki að leggjast yfir breytingartillögur í stórum stíl eins og gildir um önnur frumvörp, heldur sé það svo að menn verði að gera það upp við sig hvort þeir ætla að samþykkja þetta eða synja þessu frv. Og samkomulag flokkanna gekk auðvitað út á það að málið gengi vel fram og ekki hefur svo riðlast skipan mála hér í þinginu að ekki megi búast við því að það haldi sem ákveðið var.