Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:20:59 (46)

1999-06-10 11:20:59# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:20]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna í einlægni yfirlýsingu hæstv. forsrh., og jafnframt 1. þm. Reykv., um þetta efni. Ég gat þess kannski ekki nægilega rækilega, sem er hárrétt hjá hæstv. ráðherra, að hugmyndin um jafnstóra þingmannahópa er ekki eingöngu á tölfræðilegum grunni til að minnka nauðsyn á jöfnunarsætum heldur líka til að skapa ákveðið jafnvægi í þinginu. Þannig væru þingmannahópar tiltölulega jafnstórir, jafnöflugir, þegar kæmi að hagsmunamálum hinna nýju kjördæma. Það yrði í raun þannig ef Reykjavík yrði áfram eitt kjördæmi, að þá færum við strax með dreifbýliskjördæmin niður í sex eða sjö þingmenn. Þannig að stærsta kjördæmið væri þrisvar til fjórum sinnum fjölmennara að þingmannatölu en það smæsta. Það væri ákaflega slæm byrjun á þessu annars góða máli.

Ég vil líka segja út frá reynslu minni af kosningabaráttu, eins og við hér öll, að þetta var ekki það mál sem brann heitast á fólki. Kannski var tónninn í kjósendum svipaður og í þessum sal fyrir kosningar og hugsanlega hér eftir kosningar, að enginn var neitt sérstaklega ánægður. En allir höfðu skilning á nauðsyn þess að gera hér umtalsverðar breytingar til jöfnunar. Hvort sem maður talaði við kjósendur hér á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík eða á Reykjanesi, eða úti um land mátti greina þau viðhorf.

Þetta mál kemur því engum á óvart, engum kjósanda í landinu og því síður nokkrum hér inni.