Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:37:49 (50)

1999-06-10 11:37:49# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hæstv. forsrh. nefnir með prósentuútreikninginn, en í reynd þegar litið er á landið í heild sinni, hvað sem viðvíkur einstökum þingmönnum í einstökum kjördæmum, þá er verið að reisa þröskuld sem er 5% atkvæða. Í reynd má segja að við búum við ákveðna jöfnun með það fyrirkomulag sem við höfum núna því að það byggir á jafnræði milli stjórnmálahreyfinga og stjórnmálaflokka og því náum við með dreifingu jöfnunarsæta.

Mér finnst þetta vera upplýsingar sem Alþingi þarf að ræða, að í umræðunni fram til þessa hafi menn útilokað þá lausn sem ég held að njóti vaxandi fylgis, þ.e. að gera landið að einu kjördæmi. Menn hafa horft svo aftur í tímann og á deilur fyrri áratuga að menn hafa aldrei þorað að horfa til framtíðar. Er ekki kominn tími til þess, hæstv. forsrh., að við gerum það vegna þess að tímarnir og viðhorfin eru að breytast?

Ég var að lýsa því áðan að ég sé marga kosti við það kerfi sem við búum við núna, lítil kjördæmi og nálægð þingmannsins við það. Síðan þegar við glötum þessum kostum og förum yfir í nýja hugsun, þá skapast nýjar og aðrar aðstæður. Við eigum því að horfa fram á við en ekki aftur á bak eins og ríkisstjórnin hefur því miður gert í þessu máli.