Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:43:02 (53)

1999-06-10 11:43:02# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:43]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frv. sem við ræðum er vissulega slæmt en ég held hins vegar að við værum að fara úr öskunni í eldinn ef við tækjum það upp sem hv. þm. Ögmundur Jónasson var að leggja til kerfi þar sem landið væri eitt kjördæmi. Það hefur margoft komið fram að þetta fyrirkomulag er eingöngu við lýði í tveimur löndum, sem ég a.m.k. þekki til, Ísrael og Hollandi. Þar hefur það getið af sér flokkakraðak og mjög óskýra kosti. Síðan talar hv. þm. mjög óljóst um að bæta ætti hag dreifbýlisins vegna þess að hann var auðvitað að gefa sér það að ef landið yrði eitt kjördæmi í óbreyttu kerfi mundi það þýða lakari kosti fyrir landsbyggðina. Og þá sagði hv. þm. mjög óljóst að gera ætti það einhvern veginn þannig að færa síðan valdið til byggðanna.

Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvernig hafði hann hugsað sér að þetta yrði útfært? Er hv. þm. að tala um að það yrði gert með einföldu fyrirkomulagi þannig að vald yrði fært til sveitarfélaganna sem ríkisvaldið hefur í dag? Krefst það þá ekki mjög mikillar sameiningar sveitarfélaga og mundi hv. þm. leggja það til að fram færi lögþvinguð sameining sveitarfélaganna? Eða er hv. þm. t.d. að leggja það til og kasta því fram að taka eigi upp það sem menn hafa stundum kallað þriðja stjórnsýslustigið, sem ég held að yrði alger bastarður í íslensku stjórnkerfi svo lítið sem það er ef við færum að hrúga upp þriðja stjórnsýslustiginu við hliðina á ríkisvaldinu og sveitarfélögunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að hrein svör fáist vegna þess að við erum að tala um mjög mikilvægt mál sem er sjálf stjórnskipun landsins. Þess vegna verðum við að hafa það mjög á hreinu hvað menn eiga við þegar menn kasta fram svo róttækum hugmyndum eins og þeim að leggja af kjördæmaskipanina í landinu, gera landið að einu kjördæmi, en tala síðan um það með afar óljósum hætti að færa valdið út til dreifbýlisins, til sveitarfélaganna og breyta þannig stjórnskipuninni í landinu.