Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:45:17 (54)

1999-06-10 11:45:17# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Lögþvingun og valdboð eru einu leiðirnar sem menn virðast sjá í stjórnarherbúðunum til að breyta stjórnskipan landsins. Þótt ég segi þetta vil ég reyndar vekja athygli á því að þetta er ekki flokkspólitískt mál og á ekki að vera. Þetta er þverpólitískt mál. Þannig eigum við að taka á því. Það er því í sjálfu sér ekki rétt hjá mér að tala um stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga. Við eigum að reyna að halda því á hinum nótunum.

Ég fagnaði því á sínum tíma þegar þetta mál var til umræðu að hv. 1. þm. Vestf. var á sama máli og ég, þótt hann sjái nú ekkert annað en erfiðleika í þessu máli.

Hvaða lausnir hef ég nákvæmlega? Ég hef talað fyrir því að við komum hér á eins konar fylkjafyrirkomulagi, nýju stjórnsýslustigi sem kosið væri lýðræðislega til. Um fyrirkomulagið þyrfti að sjálfsögðu að ræða nánar og undirbúa mjög rækilega. Það væri óráðlegt að ráðast í hráar breytingar hvað þetta snertir. Við búum hins vegar ekki við neitt hættuástand. Við getum gefið okkur nokkra mánuði, nokkur missiri og nokkur ár til þess að ráðast í vandaðar breytingar á stjórnkerfinu og hinu pólitíska kerfi í landinu. Ég legg það til í stað þess að gera breytingar sem svo ágætlega var lýst hér áðan sem breytingum sem allir væru jafnóánægðir með.