Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:47:08 (55)

1999-06-10 11:47:08# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:47]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt hjá hv. 13. þm. Reykv. að við hefðum verið sammála þegar við fjölluðum um þessi mál í vetur. Um eitt vorum við að vísu sammála, við fundum þessu frv. sem hér er til umræðu ýmislegt til foráttu. Mér heyrist hins vegar að við höfum gagnrýnt þetta mál, hvor út frá sinni forsendunni. Hv. þm. talar fyrir því að jafna algjörlega vægi atkvæða og gera landið að einu kjördæmi. Ég eyddi öllum mínum kröftum og ræðum til að tala fyrir því að fullgild rök væru fyrir því að vægi atkvæði væri misjafnt. Ég fór nákvæmlega yfir þetta og tel að höfuðgallinn á frv. sé þetta markmið um að misvægið eigi aldrei að verða meira en einn á móti tveimur. Ég sagði að ég held við atkvæðaskýringu við 3. umræðu þessa máls: ,,Þetta er upphafið að ógæfunni.``

Nú kemur hins vegar hv. þm. og talar fyrir óljósum hugmyndum um fylkjafyrirkomulag sem ég er algjörlega andsnúinn. Ég tel að það væri silkihúfufyrirkomulag, allt of stórbrotið, flókið og dýrt fyrir svo lítið þjóðfélag, 250--300 þús. manns eins og okkar. Við ættum frekar að reyna að einfalda stjórnkerfið, gera stöðu sveitarfélaganna sterka og skýra og hafa skýrt afmarkað ríkisvald en ekki að búa til þetta þriðja fyrirkomulag, sem mér skilst að sé á fallanda fæti víða í löndunum í kringum okkur, t.d. á Norðurlöndunum þar sem þetta var við lýði.