Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:51:33 (57)

1999-06-10 11:51:33# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:51]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að koma örlítið inn á það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist á hér áðan, umræðuna um málamiðlun annars vegar og hins vegar það sem hann nefndi í sinni ræðu róttækni í þessum málum.

Ég vil ítreka að málið sem hér liggur fyrir er málamiðlun, það hefur komið fram hjá öðrum sem hér hafa talað. Málamiðlun er mjög sjaldan draumalausn eins eða neins en oft er hún nauðsynleg til þess að ná einhverjum skrefum í átt til framfara. Menn geta einfaldlega verið of róttækir í þessum málum eins og öðrum, svo róttækir að það leiði til þess að aldrei verði gerðar neinar breytingar.

Ég er þeirrar skoðunar að í þessu máli eins og mörgum öðrum þurfi stundum að láta svolítið af sannfæringu sinni til að ná einhverjum skrefum í átt til framfara eins og ég vil meina að þetta mál sé þó að ég sé ekki að öllu leyti sátt við niðurstöðuna frekar en margir aðrir.

Í þessu máli er um grundvallarmannréttindi í lýðræðisþjóðfélagi að ræða, réttinn til að kjósa og vera kjörinn til þjóðþingsins. Málið kom til, eins og hér hefur komið fram, vegna óánægju landsmanna með það misvægi atkvæða sem fólksflóttinn frá dreifbýli til þéttbýlis hefur leitt af sér. Í kjölfarið hefur vægi atkvæða á þéttbýlustu svæðum landsins minnkað á meðan vægi atkvæða í dreifbýlustu kjördæmunum hefur aukist. Þannig er misvægi á milli atkvæða Reyknesinga og Vestfirðinga nú 1:3,55. Ef skoðuð eru Reykjavík og Reykjanes annars vegar og landsbyggðarkjördæmin hins vegar er misvægið 1:2,08 eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar.

Þegar við fjöllum um þetta viðamikla mál er mikilvægt að við svörum þeirri grundvallarspurningu hvort við viljum jafna vægi atkvæða eða ekki. Erum við þeirrar skoðunar að við teljum einfaldlega allt í lagi að láta atkvæði Vestfirðinga vega mun þyngra en atkvæði Reyknesinga? Getur sú skipan hugsanlega verið réttlætanleg með tilliti til þess að á þéttbýlustu svæðunum eru flestar stofnanir ríkisins staðsettar og búsetuskilyrði öll betri en í dreifbýlinu? Er hægt að réttlæta misvægi atkvæða með þessum rökum?

Hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti því yfir hér áðan að hann teldi það ekki endilega þurfa að vera þannig að atkvæði manna ættu að vera jöfn hvar sem þeir byggju á landinu. Það gætu verið rök fyrir misvæginu. Ég segi hins vegar nei. Ég tel ekki rétt að blanda saman umræðu um grundvallarrétt manna til að kjósa og vera kjörnir til þings eða héraðsstjórna við búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Þó vil ég ítreka að ég tel mjög mikilvægt að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni.

Byggðaþróunin og umræðan um afleiðingar hennar á búsetuskilyrði í þéttbýli og dreifbýli er stórt mál sem varðar alla þjóðina. Það er ekki einkamál dreifbýlisfólks að reyna að hafa áhrif á þá þróun. Það er hins vegar allt annað mál en hér er til umræðu og því á ekki að blanda saman.

Ég vil spyrja þá sem telja misvægið réttlætanlegt í ljósi ójafnra búsetuskilyrða: Hvað hefur þetta misvægi fært landsbyggðinni? Hefur það komið í veg fyrir að fólk flýi frá dreifbýlum svæðunum til þéttbýlla? Ég hef ekki orðið vör við það þrátt fyrir að vægi atkvæðanna hafi orðið æ meira í dreifbýlinu.

Þetta misvægi atkvæða og sú staðreynd að þingmenn dreifbýlisins eru hlutfallslega fleiri en þéttbýlisþingmenn, hefur ekki breytt þeirri staðreynd sem við höfum horft upp á undanfarin ár og áratugi og er vissulega málefni þjóðarinnar allrar. Í því ljósi finnst mér það nánast niðurlægjandi fyrir landsbyggðina að blanda því saman að hugsanlega megi fórna þessu misvægi ef malbikaðir vegarspottar fást hér eða þar, eða hin eða þessi ríkisstofnunin verði færð út á land. Mér finnst þetta umræða sem eigi ekki að blanda þessu máli og málin eigi einfaldlega ekki samleið. Hún er af allt öðrum toga. Það breytir ekki þeirri skoðun minni að mikilvægt sé að allir þingmenn þjóðarinnar hafi áhyggjur af þróun fólksflutnings frá dreifbýli til þéttbýlis.

Ég er þeirrar skoðunar að sama atkvæðavægi eigi að vera á milli landsmanna hvar sem þeir búa á landinu. Ég er líka þeirrar skoðunar að þingmenn landsmanna séu þingmenn allra landsmanna en ekki aðeins kjósenda í eigin kjördæmi. Þannig ber ég sem þm. Reykv. hagsmuni landsbyggðarinnar fyrir brjósti og trúi að í þessu landi eigi að búa ein þjóð við sömu skilyrði eftir fremsta megni. Ég tel að við sem þingmenn eigum öll að reyna að hafa áhrif á það. Eins og ég sagði áðan og vil ítreka, neita ég að blanda þeim vandamálum saman við þann grundvallarrétt manna að eiga sömu möguleika á að kjósa og vera kjörnir, hvort sem þeir búa á Norðurlandi, Suðurlandi eða í Reykjavík.

Frv. sem hér er til umræðu er skref í rétta átt. Ég held að betra hefði verið ef við hefðum náð lendingu um að sama atkvæðavægi væri milli manna hvar sem þeir búa á landinu en ég virði hins vegar að þetta er málamiðlun allra flokka sem hér sitja og að svo stöddu var ekki lengra komist. Þetta er sem sagt skref í rétta átt.

Það hefur verið gagnrýnt, m.a. af þingmönnum Reykv., að Reykjavík sé skipt upp í tvö kjördæmi. Ég held að við þurfum að skoða það í heildarsamhengi. Ef við á annað borð viljum jafna vægi atkvæðanna þá þurfum við líka að svara því hvernig við ætlum að gera það. Við gerum það annaðhvort með því að sameina dreifbýlustu kjördæmin og skipta þeim þéttbýlustu upp eða gera landið að einu kjördæmi. Ef menn eru ekki tilbúnir til þess að ganga alla leið og gera landið að einu kjördæmi þá þurfum við að skoða þær leiðir sem farnar eru í þessu frv.

Í sjálfu sér tel ég ekki stórhættulegt að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi en ég tel að það skipti hins vegar miklu máli hvernig það yrði gert. Einkum hafa verið ræddar tvær hugmyndir í þeim efnum, annars vegar um að skipta Reykjavík upp í austur/vestur kjördæmi og þá væntanlega yrðu mörkin einhvers staðar við Skeiðavog, eða þá í norður/suður kjördæmi og þá mundi Miklabrautin skera Reykjavík í sundur.

Ég tel mikilvægt að þegar Reykjavík yrði skipt upp, ef þetta frv. verður samþykkt, þá verði farin sú leið að skipta henni upp í norður/suður kjördæmi. Þannig yrði lagskiptingin í borginni eðlilegri. Það er nú einu sinni þannig að í vesturhluta Reykjavíkur höfum við elstu og rótgrónustu hverfin en nýju hverfin í austrinu. Það getur orðið mjög mikill munur á samsetningu þessarar tveggja kjördæma ef skiptingin yrði austur/vestur. Með norður/suður-skiptingin mundi hins nást svipuð samsetningu íbúa í hvoru kjördæmi um sig. Ég held að miklu máli skipti að hafa þetta í huga þegar við ákveðum skiptingu Reykjavíkur.

[12:00]

Ég held að æskilegra hefði verið að taka kosningalögin til umfjöllunar um leið og við fjöllum um þessa stjórnarskrárbreytingu. Að mínu mati hefði það verið eðlilegra.

Ég vil vekja athygli á skýrslu sem fylgir sem fskj. við skýrslu forsrh. um endurskoðun á kjördæmaskipun og tilhögun kosninga til Alþingis. Skýrslan er fskj. nr. 7 og heitir Jafn réttur karla og kvenna til að kjósa og vera kjörin til þjóðþinga og héraðsstjórna. Þar er nokkuð greinargóð úttekt á þeim vandamálum sem menn hafa staðið frammi fyrir varðandi möguleika kvenna til þess að vera kjörnar til þjóðþinga víða um heim. Þar kemur margt fróðlegt fram.

Ég sat nýverið vestnorrænt kvennaþing þar sem þessi mál komu til umfjöllunar. Þar var m.a. drepið á það hvort mismunandi kjördæmaskipan eða kosningafyrirkomulag hefði áhrif á möguleika kvenna til að ná kjöri og eru ýmsar skoðanir uppi í þeim efnum. Í áðurnefndri skýrslu sem unnin var á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands fyrir nefndina --- Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir lögfræðingur vann hana --- er tæpt á almennum rökum fyrir því að hafa sama vægi atkvæða á milli manna, hvar sem þeir búa. Skýrslan er líka athyglisverð í ljósi þess að konur virðast hafa átt erfiðara með að ná kjöri en karlar, hverjar svo sem ástæðurnar eru fyrir því. Í skýrslu segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fullkomið lýðræði endurspeglar vilja allra þegna þjóðfélagsins en ekki einhvers hóps umfram annan. Fullkomið lýðræði á því að vera þannig úr garði gert að allir hópar manna hafi í raun jafna möguleika til að kjósa og vera kjörnir. Meginreglan um jafnrétti karla og kvenna er einmitt sprottin úr þeim jarðvegi.``

Í ljósi þessa, þó að það sé kannski ekki beinlínis út frá sjónarmiðunum um karla og konur, má benda á að miðað við 1. desember 1997 eru að baki þingmanni sem kjörinn er fyrir Reykjanes eru 4.254 kjósendur en 1.197 kjósendur að baki þingmanni sem kjörinn er fyrir Vestfirði. Það dregur kannski fram misvægið sem ríkir.

Svo ég snúi aftur að skýrslunni um jafnan rétt karla og kvenna, þá segir þar:

,,Meginreglan um jafnrétti karla og kvenna, og þar á meðal kosningarréttinn, var tekin upp í helstu mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar var stærsta skrefið stigið með ákvæði Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 um jafnan kosningarrétt. Árið 1953 þótti svo rétt að tryggja stjórnmálaréttindi kvenna með sérstökum alþjóðasamningi þess efnis. Samningur þessi var gerður árið 1953 og nefnist hann ,,alþjóðasamningur um stjórnmálaleg réttindi kvenna ...

Jafn kosningarréttur er einnig áréttaður í samningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem gerður var síðar eða árið 1966. 25. gr. hans er ítarlegri útfærsla á ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar. Rétturinn til að kjósa og vera kjörinn án allrar mismununar er skýlaus samkvæmt ... þeim mannréttindasáttmálum sem varða það efni. Þar er ekki einungis með skýrum og afdráttarlausum hætti kveðið á um rétt manna til að kjósa, heldur og rétt og tækifæri allra til að vera kjörnir.`` Þau tækifæri eru ekki jöfn á Íslandi í dag.``

Ég vil líka segja að í þessari skýrslu kemur fram að aðildarríkjum samningsins beri skylda til að grípa til aðgerða eða ráðstafana til að tryggja efnislegan rétt og tækifæri manna án mismununar til að vera kjörnir. Ég tel því beinlínis skyldu okkar að spyrna á móti auknu misvægi atkvæða milli þéttbýlis og dreifbýlis. Um leið er skylda okkar sú að sjá til þess að a.m.k. séu ekki innbyggðar hindranir í kosningakerfum eða kjördæmaskipan landsins fyrir því að t.d. konur geti náð kjöri.

Að lokum vil ég, herra forseti, ítreka að hér er skrefið ekki stigið til fulls. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið ómögulegt að svo stöddu. Fyrir því er einfaldlega ekki pólitískur meiri hluti á Alþingi. Við erum hins vegar að draga svolítið úr misvæginu og þess vegna mun ég styðja þessa breytingu.