Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 13:30:12 (68)

1999-06-10 13:30:12# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[13:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt mál sem er til umræðu og ég býst við því að ég sé ekki að ýkja þó að ég haldi því fram að þetta mál, frv. til stjórnarskipunarlaga með breytingu á kjördæmaskipan landsins, sé stærsta mál síðasta kjörtímabils. Þetta er það mál sem hér liggur fyrir og einkennist af því að Alþingi hafnar því eða samþykkir. Þetta er mál sem ekki er möguleiki á að gera breytingar á að nýju miðað við lög okkar.

Virðulegi forseti. Það er átakasamt að breyta kjördæmaskipan, enda ekki oft gert og það á að gera sjaldan. Í þessu frv. til stjórnarskipunarlaga eru ekki mjög margir þættir lögfestir. Við erum að festa að 63 þjóðkjörnir þingmenn verði enn um sinn. Við erum að festa það að kjördæmin skuli vera fæst sex og flest sjö. Við erum að festa að í hverju kjördæmi skuli vera minnst sex kjördæmissæti og við erum að ganga frá því hvernig við jöfnum hlut stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Það þýðir að við erum að jafna atkvæðaréttinn og við erum að jafna það að þingmannafjöldi í kjördæmi sé í meira samhengi við niðurstöðu kosninga í kjördæmi en áður hefur verið.

Þetta er mikilvægt, sérstaklega það réttlætismál að jafna atkvæðavægið. En það er líka mörgum erfitt að skilja hvernig niðurstaða kosninga og þingmannatala flokks í kjördæmi fer saman miðað við núgildandi löggjöf. Oft hefur verið mjög erfitt að áætla það, jafnvel þó að menn eigi von í ákveðnu magni atkvæða hvaða þingmannafjölda það atkvæðamagn muni hugsanlega skila.

Mér finnst mjög mikilvægt og það má ekki gleymast í umræðunni hvers vegna menn fóru í það viðamikla verkefni að gera breytingar. Í grg. með frv. sem fjallað var um í fyrra kemur fram, og það eru þýðingarmiklir þættir, að gera eigi kosningakerfið einfalt og auðskiljanlegt, að draga eigi úr misvægi atkvæða og að þingsætafjöldi í hverju kjördæmi verði sem jafnastur. Jöfnuður er eins og rauð lína í öllum forsendum þessa frv.

Ekki hvarflar að mér að ánægja sé með þetta frv. í neinum flokki. Það sem hér er lagt til að festa í lög er samkomulag þar sem menn komast næst því að verða sáttir um niðurstöðu. Þetta er ekki það sem einn flokkur vill og þess vegna eru svo skiptar skoðanir þingmanna, því að líka í máli sem þessu mundu verða ólíkar skoðanir uppi í hverjum flokki um sig. Það er óhjákvæmilegt í máli af þessum toga. En þó að þetta sé ekki það sem allir vildu endilega að yrði niðurstaðan er alveg ljóst að við erum að taka stórt skref í réttlætisátt og það er það sem er mikilvægt.

Fram hefur komið að kosningalögin eru mjög mikilvægur hluti af þessu máli. Það er alveg ljóst að frv. um breytingar á kosningalögunum, sem var fylgifrv. þessa stjórnarskipunarfrv., hefði fengið mikla umræðu hér og það hefði verið afskaplega mikilvægt að geta fjallað um það samhliða þessu frv., til að við værum að ræða málið heildstætt.

Það er mjög óþægilegt að Alþingi skyldi ekki hafa náð niðurstöðu um það mál á síðasta kjörtímabili þannig að það lægi fyrir hér eða að við mundum hafa tekið það fyrir á þessu þingi vegna þess að mjög mörgum, sérstaklega þeim sem eru ósáttir við niðurstöðuna í þessu frv., mun finnast að málið sé mjög ófrágengið þar sem kosningafrv. hefur ekki komið til umræðu.

En annað frv. kom fyrir þingið á síðasta vori. Það er frv. til laga um kosningar til Alþingis og er mikill lagabálkur. Í því frv. er fjallað um eiginlega öll þau mál sem tengjast kosningum annað en það sem lýtur að breytingum á kjördæmaskipan. Þetta er mikill lagabálkur upp á á annað hundrað greinar, 130 greinar. Það frv. fékk talsverða umræðu og var gagnrýnt mjög mikið í vor. Það náði heldur ekki afgreiðslu þingsins, það fékk ekki umfjöllun í nefnd og það á eftir að afgreiða það. Svo ber við að breytingarnar á kosningalögunum, sem boðaðar eru í frv. til stjórnarskipunarlaga og sem við eigum eftir að taka fyrir, eru breytingar á lögum nr. 80/1987, sem er í raun það mál sem hefði átt að afgreiða í vor. Það verður mjög flókið að fara í gegnum þetta vegna þess að annars vegar er verið að samræma lagaákvæði um kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna en breytingar á kosningum til sveitarstjórna voru gerðar árinu á undan. Hins vegar munum við þurfa að fella að því frv. líka þau ákvæði sem er að finna í drögum að breytingum á kosningalögunum sem er að finna í frv. til stjórnarskipunarlaga. Það er því mikil vinna sem enn þá á eftir að fara fram varðandi kosningalögin áður en við getum tekið þau til umræðu í þinginu. Það er í raun og veru mjög eðlilegt að sú vinna fari öll fram í samhengi, að farið sé yfir öll kosningalögin og sett ný lög þannig að samhengi sé á milli þess sem við erum að gera í breytingum á kjördæmaskipan og öllu sem lýtur að kosningum til Alþingis. Þetta vil ég að komi fram vegna þess að ég tók þátt í umræðu um þetta frv., sem lýtur að kosningarrétti og kjörgengi og almennum reglum um kosningarnar í fyrra, og talsvert miklar athugasemdir voru gerðar við frv. og gagnrýni kom á það og að margt þyrfti að breytast í því til að færa það inn í nútímann.

Þess vegna finnst mér afskaplega ánægjulegt að heyra að hæstv. forsrh. ætlar að setja vinnu í gang við kosningalögin og mér hefur skilist að sú vinna verði þverpólitísk. Þetta er afskaplega mikilvægt. Ég skil það þannig að hæstv. forsrh. áformi það að allir flokkarnir hafi aðkomu að þessu nefndarstarfi og það er mjög mikilvægt vegna þess að þetta er mikil vinna og þetta er sáttagjörðin síðari. Ef við getum talað um að náðst hafi bærileg sátt um sjálft kjördæmamálið þarf að ljúka þeirri sátt með vinnunni í kosningalögunum.

Þó að eftir eigi að fara í kosningalögin og ljúka vinnu við þau og að þar sé að finna svo margt sem lýtur að afgreiðslu kjördæmamálsins í heild þá breytir það því ekki að stjórnmálaflokkarnir hafa náð saman um stóru útlínur þessa máls. Búið var að ná saman um stóru útlínur málsins og í raun og veru að miklu eða öllu leyti um þann þátt kosningalaganna sem tengist breytingum á kjördæmaskipan. Ég held að það væri miður ef menn fengju þær væntingar að e.t.v. væri hægt að taka allt málið upp aftur og breyta kjördæmaskipan út og suður þvert ofan í það sem var rætt á þessu vori. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að halda okkur við hinar stóru útlínur þó að jafnmikilvægt sé að ná sátt um aðra þætti sem tengjast málinu.

Í grg. með frv. sem við fjölluðum um í vor kemur fram að margar af röksemdunum sem áður giltu um kjördæmaskipan og skiptingu þeirra ættu ekki við lengur og m.a. er vísað til þess að samgöngur hafi batnað stórkostlega frá árinu 1959 þegar núverandi kjördæmaskipan var tekin upp. Ég tek undir að það eru orðnir gjörbreyttir tímar og það er mjög óalgengt að kosningar fari fram á t.d. erfiðum tíma árs, mjög óalgengt núorðið. En það sem er meira umhugsunarefni, og hefur verið gagnrýnt af hálfu t.d. dreifbýlisins, er að kjördæmin verða mjög stór. Ég skil vel að mörgum vaxi það í augum að hugsa til þeirrar yfirferðar sem felst í því að vera þingmaður í svo stórum kjördæmum. Það skil ég mjög vel. Sérstaklega ef menn líta til þess með hugarfarinu sem gilti 1959 að fyrst og fremst væru það þingmenn kjördæmisins sem sinntu kjördæminu og væru á ferð í kjördæmi sínu hvernig sem viðraði og á hvaða tímum árs sem væri.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þetta sé breytt. Þingmenn munu í auknum mæli sinna kjördæmum sínum frá Reykjavík. Þó það hljómi ekkert mjög vel þá er það staðreynd að meðan þing situr eru þingmenn að störfum á Alþingi, nema rétt í janúarhléinu. Svo vel þekki ég störf þingmanna í þingflokki mínum og þeim þingflokkum sem ég hef verið formaður fyrir, að ég hef fylgst með ötulli vinnu þeirra þegar þeir fara héðan af þinginu út um land á hina ýmsu staði í kjördæmi sínu. Það er óhjákvæmilegt að það gerist að menn muni sinna ákveðnum hlutum stórra kjördæma héðan, fari beint héðan í þann hluta kjördæmisins sem þeir ætla að vera á fundum í á hverjum tíma.

Það verður ekki eins og var áður, að menn séu tímabundið heima og keyri um kjördæmið, á ákveðna staði þar og reyni að hafa yfirferð um allt kjördæmið á um það bil viku. Þetta er, ef maður getur leyft sér að taka það orð í munn, karakterbreyting á kjördæmavinnu og vinnu þingmannanna í kjördæmum.

Ég vil líka að það komi fram hér að um leið og ég stend að því frv. sem afgreitt var í vor og þeirri sátt sem um það náðist, þá er það skoðun mín að best væri að vera með landið eitt kjördæmi. Þá værum við með lista sem sýndi væntanlegan þingflokk viðkomandi flokks. Þá væri alveg ljóst að ef flokkur væri að fá 17 þingmenn sæist á þeim lista hvaða 17 þingmenn það væru. Eða ef flokkur ætti von á því að fá 25 þá sæist hverjir þessir 25 væru. Þá sæist hvernig menn hafa valið á þennan lista. Það kæmi fram á honum hvernig þingflokkurinn mundi verða samsettur við áætlaða þingmannatölu. Það mundi koma fram strax hvernig byggðatenging þess þingflokks yrði, hvort heldur við dreifbýlið allt í heild eða ákveðna hluta kjördæma, og það sæist líka á slíkum lista hvernig viðkomandi flokkur mundi skipta þingflokki sínum hvað varðar kynjahlut.

Þetta tel ég og hef talið mjög lengi að væri besti kosturinn. Um það er ekki sátt á Alþingi að fara þessa leið. En ef hún væri farin værum við að sýna einn lista, tengingu hans við byggðir og dreifbýli og skiptingu bæði hvað varðar kyn og annan bakgrunn fólks. En slíkur þingflokkur væri að sinna landinu öllu.

Þannig hefur starf þingmannsins verið að þróast. Þingflokkar eru ekki bara þannig að Reykjavíkur- eða Reykjanesþingmenn séu bara í Reykjavík og á Reykjanesi og hinir fari út á land. Í þeim þingflokkum sem ég hef starfað sem þingflokksformaður hafa allir þingmennirnir farið út um land, unnið saman að vinnu sem snýr að öllum kjördæmum og látið sig varða hvernig mál þróast á landsbyggðinni og í þéttbýli. Og allur hópurinn hefur litið á það sem sameiginlega ábyrgð sína hvernig landið allt er í byggð og litið á það sem sameiginlega ábyrgð sína hvernig þegnunum líður.

Þess vegna mun það líka gerast með þessari kjördæmaskipan að þingmenn munu fara saman út um land, ekki bara þeir sem eru kjörnir í viðkomandi kjördæmi heldur líka hinir sem koma annars staðar frá. Og ég held að það eigi eftir að verða gott. Slíkt sameiginlegt verkefni er gott, slík sameiginleg ábyrgð er sjálfsögð.

[13:45]

Virðulegi forseti. Annað sem mig langar að nefna hér eru áform um byggða- og félagsmál sem sett voru fram þegar þetta frv. var til afgreiðslu í vor. Ég ætla að taka undir orð hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, þm. Samfylkingarinnar, sem hún lét falla um vegarspotta og malbik, gulrótina sem sett var fram til ná saman um þetta mál. Mér finnst vont að áformin sem sett voru fram um byggða- og félagsmál, um að skoða hvort grípa ætti til aðgerða til að styðja og styrkja búsetu á landsbyggðinni og fara sérstaklega í samgöngu- og vegamál, vera örar með endurbætur á ákveðnum byggðasvæðum í vegamálum, skoða fjarskiptamál, húshitunarkostnað, námskostnað vegna framhaldsnáms o.s.frv., skuli enn þá vera í frv. því sem birtist okkur í dag. Það hefði verið reisn yfir því, á þessum mánuðum sem liðnir eru frá því að frv. til stjórnarskipunarlaga var sett fram, að búið væri að setja niður fyrir sér nákvæmlega hvað gera ætti á næstu fjórum árum, hvað gera ætti í hverju kjördæmi og hvers fólk í byggðum landsins megi vænta.

Ég get nefnt að í mínu kjördæmi hefur verið litið á það sem grundvöll þessarar breytingar að Suðurstrandarvegur verði byggður, þ.e. tengingin á milli Suðurnesja og Suðurlands. Ekki aðeins að það skipti máli fyrir tenginguna frá þessu athafnasvæði við annað athafnasvæði, bæði upp á atvinnu og ferðaþjónustu. Síðast en ekki síst skiptir þar máli tilfinning fólks fyrir því að vera hluti af heild, að tengingin sé góð. Ekki hef ég sett það niður fyrir mér hvar í röðinni Suðurstrandarvegur eigi að koma í öllum þeim verkefnum sem menn hafa tengt þessu máli og þar mætti nefna jarðgöng líka. Ég hef ekki gert það og það verður ekki í mínum verkahring. Ég held að það hefði verið gott, til að koma í veg fyrir óþarfa væntingar, að vera búin að setja niður hvernig taka eigi á bæði byggða- og félagsmálum, ekki síst í þeim verkefnum sem mörgum finnst að verið hafi gulrót í þessu frv.

Virðulegi forseti. Það voru ekki margir þættir sem mig langaði að nefna í þessu máli aðrir en að leggja áherslu á þá sátt sem náðist um málið í vor. Við megum ekki gleyma henni og ekki gleyma því að fæstir fá nákvæmlega það sem þeir vilja. Við megum ekki heldur gleyma því að við erum að taka mikilvægt skref í því að jafna atkvæðisréttinn. Það er stærsti þáttur þessarar breytingar.

Ég ætla að nefna það í lokin, virðulegi forseti, að við höfum oft rætt um að færa prófkjör inn í kosningarnar. Inn á það var örlítið komið í greinargerð með kjördæmafrv. Um það er fjallað í drögum að frv. til kosningalaga, að auka möguleika kjósenda til að sýna afstöðu til einstakra frambjóðenda.

Mig langar að segja að við höfum verið með prófkjör í sumum flokkum. Það er mjög gagnlegt að vera með prófkjör annað slagið og sumir vilja alltaf notast við prófkjör. Hins vegar eru líka gallar á prófkjörunum. Það er afskaplega gaman að vinna glæstan sigur í prófkjöri en það eru gallar á prófkjörunum. Við höfum séð suma þeirra birtast áþreifanlega í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, t.d. þar sem miklar auglýsingar hafa verið leyfðar. Ljóst er að prófkjör er mjög kostnaðarsamt og þar með rýrum við rétt til þátttöku í því mikilvæga starfi sem stjórnmálastarf og þátttaka á Alþingi Íslendinga er. Ég ætla ekki að setja fram ákveðna skoðun í því núna en ég held að fyrr en seinna verðum við á Alþingi að ræða þessi mál. Hvernig viljum við hafa val kjósandans til að hafa áhrif? Á það að vera í kjörklefanum? Erum við þá að kalla á gífurlega auglýsinganotkun einstaklinga í framboði í kosningum? Færum við prófkjörin og kostnaðinn við þau inn í kosningabaráttuna sjálfa? Það finnst sumum Finnum hafa gerst hjá sér. Eigum við að reyna að skoða hvaða leið er best? Á að auka réttinn meira en þarna er getið um án þess beinlínis að taka prófkjör inn í kosningalög? Þetta þurfum við að ræða. Þetta hefur næstum ekkert verið rætt hér, lítillega verið komið inn á það við báðar umræðurnar en þetta er stórt mál sem við þingmenn höfum vikið okkur nokkuð undan að ræða.