Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 13:50:01 (69)

1999-06-10 13:50:01# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[13:50]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Segja má að frv. sem hér liggur frammi til stjórnarskipunarlaga sé skref í þá átt að jafna vægi atkvæða. Margar atrennur hafa verið gerðar að þessu máli í gegnum tíðina hef ég heyrt. Kannski eigum við eftir að sjá það gerast að landið verði eitt kjördæmi. Það er greinilega sú þróun sem er í gangi. Ég fæ ekki betur séð en það mál sé að öðlast meira fylgi.

Ég vil taka undir það sem fram kemur í greinargerð með frv. að æskilegt sé að hægt verði að gera breytingar á kosningakerfinu án þess að breyta þurfi stjórnarskránni í hvert einasta sinn sem eitthvað þarf að hreyfa þarna við.

Með samþykkt þessa frv. mundi draga verulega úr misvægi atkvæða eftir búsetu þó enn megi betur gera en samkvæmt skýrslu nefndarinnar á töflu 12 er auðvitað enn misvægi og mesta misvægið 1:1,80 í Norðvesturkjördæminu og síðan í Suðvesturkjördæmi, sem er Reykjanes án Suðurnesja.

Við þekkjum að með þetta er óánægja í öllum kjördæmum en þarna er að nást ákveðin sátt sem mér finnst dálítið mikilvægt að standa vörð um eftir alla þá miklu vinnu sem fram hefur farið. Með stækkun kjördæmanna eigum við möguleika á því að auka hlut kvenna sem ekki má gleyma að er mikilvægur í allri stjórnmálabaráttu. Í greinargerðinni á bls. 35 í skýrslunni segir:

,,Mikilvægt er að þær breytingar á kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi, sem stefnt er að, torveldi ekki þá þróun í átt til aukinnar stjórnmálaþátttöku kvenna sem orðið hefur á undanförnum árum og áratugum, heldur þvert á móti stuðli frekar að því að konur taki sæti á Alþingi.``

Þetta er mjög mikilvægt og jafnframt það sem segir hér á öðrum stað:

,,Í viðræðum, sem nefndin hefur átt við fræðimenn, hefur komið fram að rannsóknir sýna talsverða jákvæða fylgni milli ákveðinna þátta kosningaskipulags og fjölda kvenna á þingi. Er þar aðallega um að ræða hlutfallskosningar og stór kjördæmi. Kemur það raunar heim og saman við reynsluna hér á landi því að engin kona hlaut kosningu í einmenningskjördæmi, og eftir síðustu kosningar var hlutfall kvenna í einstökum kjördæmum því hærra sem kjördæmið hefur fleiri þingmenn; í minnstu kjördæmunum tveimur náði engin kona kjöri.``

Þetta hefur því mjög mikið að gera með kosningaþátttöku kvenna og að konur nái sæti á þingi.

Þrátt fyrir ákveðna óánægju varðandi Reykjavík --- flestallir þekkja að gætt hefur ákveðinnar óánægju með að skipta höfuðborginni í tvö kjördæmi --- er mjög mikilvægt að ekki skapist togstreita og upp komi hagsmunaátök innan borgarinnar. Það er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir það. Það sem greinilega liggur að baki þessari skiptingu er ekki spurning um landfræðilega skiptingu heldur fyrst og fremst fjöldinn í hverju kjördæmi fyrir sig.

Jafnframt hefur verið bent á tvær leiðir í skiptingu borgarinnar. Það er talað um austur/vestur, við eigum möguleika á því en ég held að mikilvægara sé að skiptingin verði suður/norður. Ef við skiptum borginni í austur/vestur eins og nú er talað um, þá fáum við mjög skýra stéttaskiptingu í borginni. Það sem hefur gerst í Reykjavík er að öll nýbyggðasvæðin, allt barnafólkið, allt félagslegt húsnæði og allt það nýjasta --- borgin hefur vaxið í þá átt --- er allt í austurborginni. Í vesturborginni eru þeir sem hér hafa kannski búið lengst, fólk á miðjum aldri, húsnæði er örlítið dýrara þar og þar er eldra fólk í miklum mæli. Þannig fengjum við mjög ójafna mynd og allt of skarpar línur þar á milli. Ég legg til að þetta verði skoðað vel og fundin skynsamleg niðurstaða út frá þessum ásum í borginni.

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir ýmsa annmarka á frv. þá virði ég svo sannarlega alla þá vinnu sem í það hefur verið lögð og ég hef ákveðið í samræmi við samvisku mína að greiða þessu frv. atkvæði mitt.