Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:00:09 (71)

1999-06-10 14:00:09# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:00]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu afar mikilsvert mál, það er rétturinn til að kjósa sem er grundvöllur lýðræðisins. Reglurnar um kosningafyrirkomulagið eru prófsteinn á lýðræðið í hverju landi. Frásagnir fjölmiðla af kosningum víða úr heiminum berast okkur sífellt. Í þeim fréttum eru reglur og framkvæmd kosninga ævinlega vegnar á einfalda mælikvarða. Máttu allir bjóða fram? Mega allir kjósa? Eru hótanir eða ógnanir af einhverju tagi til staðar?

Kosningakerfin sjálf eru sjaldnast útskýrð í slíkum fréttum né misjafnt vægi atkvæða milli einstakra kjördæma. Við vitum því ekki svo glöggt af slíkum fréttum hvort grundvallarreglan, einn maður = eitt atkvæði, þýði í raun: allir menn = jafnstórt atkvæði. Í fljótu bragði virðist grunnhugsun lýðræðisins, sem felst í reglunni að allir eigi að hafa rétt til að kjósa, bera í sér þessa afstöðu að atkvæðin skulu vera jafnstór.

Þegar kemur hins vegar að framkvæmd kosninga og því sem hér er að gerast, þ.e. að skapa umgerð um kosningafyrirkomulagið, verða ýmsir erfiðleikar á veginum, erfiðleikar við að finna leiðir sem færa okkur niðurstöðuna: allir menn = jafnstórt atkvæði.

Þetta getum við t.d. aldrei hvað varðar sveitarstjórnir í landinu. Varla verður nokkurn tíma jafnstórt atkvæði Vestmanneyings og Reykvíkings þegar á að fara að kjósa til sveitarstjórna. En það segir ekki að menn eigi ekki að leita leiða til þess að hafa þau réttindi sem jöfnust og eðlilegust. Og meiri hlutinn á að ráða í lýðræðisþjóðfélagi.

Við sem búum úti á landi höfum lengi fundið fyrir kröfunni um að atkvæðisrétturinn verði jafnaður. Það hefur verið mín skoðun lengi að við ættum að taka þátt í að jafna atkvæðisréttinn. Við sem úti á landi erum og höfum búið þar sem atkvæðavægið hefur verið meira stundum, en ekki alltaf, ættum að taka þátt í því að finna leið út úr þessum vanda.

Mér finnst ekki hafa tekist vel til með þá leið sem hér hefur verið valin, sem skilar okkur hluta af því réttlæti sem sóst er eftir. Þarna komast menn varla hálfa leið að því að jafna atkvæðisréttinn. Ég tel að það sé ekki nóg. Mér finnst að menn hefðu átt að fara í gegnum þá umræðu að jafna atkvæðisréttinn alveg. Það hefur komið í ljós í þeim umræðum sem hér hafa farið fram, og ég hef verið að reyna að hlusta eftir, að það hefur ekki verið gert.

Menn gerðu í upphafi stuttlega upp á milli sín, í þingflokkum hér í Alþingi, að sú leið að breyta landinu í eitt kjördæmi og jafna atkvæðisréttinn alveg kæmi ekki til greina, hún kæmi ekki til álita. Það hefur hins vegar komið fram hjá flestum af þeim sem hafa tekið til máls í dag, og ég veit reyndar um miklu fleiri, að þeir hefðu kosið miklu fremur að gera landið að einu kjördæmi heldur en að fylgja því frv. sem hér er til umræðu. Og þá ætti næsta hugsun kannski að vera sú hvort ekki væri rétt að menn tækju í alvöru umræðuna um að gera landið að einu kjördæmi og afgreiði það mál sem breytingartillögu við þetta frv. En það er ekki svo einfalt að það sé hægt heldur vegna þess að menn finna sig hér í handjárnum. Menn hafa lofað stuðningi við málið eins og það liggur fyrir. Og það er alveg ljóst að þó að fyrir lægi breytingartillaga, þótt hún væri vel unnin, um að gera landið að einu kjördæmi, þá gæti hún ekki fengið fylgi. Hún mundi spilla framgangi málsins síðar meir með því að verða felld hér með kannski stórum meiri hluta atkvæða.

Sú hugsun flögrar að manni aftur og aftur að við séum ekki rétti hópurinn til að afgreiða þetta mál. Ég hef styrkst í þeirri trú eftir að hafa hlustað á þingmenn hér í dag. Því að þau mál sem hafa verið látin hafa áhrif á niðurstöðuna, þá niðurstöðu sem menn fengu á síðasta þingi, eiga ekkert skylt við atkvæðisréttinn. Það eru vegir hér og þar og það má með góðum vilja segja að góðar samgöngur þurfi innan hvers kjördæmis. Það er ýmislegt fleira sem hefur komið til og þingmenn hafa greinilega litið á það sem hluta af því að taka þátt í að afgreiða þetta mál á jákvæðan hátt, sitja hjá eða greiða því atkvæði. Þetta finnst mér vera vont og mér finnst það vond lausn á þessum málum að hafa þurft að fá hana með þessum hætti.

Það eru líka undarlegar niðurstöður að sumu leyti sem fyrir okkur eru lagðar. Til dæmis er hugmyndin um að breyta höfuðborginni í tvö kjördæmi afar sérkennileg. Ég heyri ekki nokkurn mann mæla með henni hér. Mér finnst afar undarlegt að menn skuli hafa ratað í þær ógöngur að verða sammála um að gera það sem enginn vildi gera.

Hvað er þá til ráða? Er kannski hægt að taka það atriði til endurskoðunar úr því að málið verður ekki allt klárað?

Ég velti því líka fyrir mér eftir að þingmenn hafa tekið þátt í að semja um alla þessa hluti eins og hér hefur verið gert og maður finnur óminn af í þessum umræðum, hvernig geta menn þá slitið málið í sundur núna og ætlað að taka helminginn af því síðar til afgreiðslu? Á maður sem sagt að taka afstöðu núna með eða móti þessu máli án þess að vita hvar þessi kjördæmamörk eiga að liggja og hvort Siglufjörður eða eitthvert annað byggðarlag er með eða ekki í einhverju tilteknu kjördæmi? Mér finnst afar slæmt að menn skuli ekki hafa gengið í þetta mál að öllu leyti og klárað það.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir að hér getum við ekki gert annað en að afgreiða þetta mál með jái, neii eða hjásetu. Ef við fellum það mun ekkert gerast hvað varðar jöfnun atkvæða. Ég er á þeirri skoðun að sú leið sem hefur verið valin sé miklu verri en ýmsar aðrar þær leiðir sem voru fyrir hendi. Það versta er þó það sem ég sagði áðan, að ekki skyldi vera farið yfir þá möguleika sem gætu verið til þess að jafna atkvæðisréttinn alveg í alvöruumræðu og umfjöllun í hv. Alþingi. Að gera landið að einu kjördæmi hefur ekki fengið þá umræðu. Það gagnrýni ég mest.

Hæstv. forsrh. sagði í umræðunni að t.d. stjórnarflokkarnir væru á móti því. Það getur svo sem vel verið. Hins vegar man ég eftir því að framsóknarmenn báru fram tillögu um að gera könnun á því að gera landið að einu kjördæmi. Ég hef hlustað á formann Framsfl. hafa það við orð, og fleiri reyndar úr Framsfl., í umræðu sem kom í fjölmiðlum um þetta mál í vetur að jafnvel væri betra að gera landið að einu kjördæmi heldur en það sem þá var boðið upp á. Ég held því að fylgið við þá hugmynd sé kannski víðar en hæstv. forsrh. vildi vera láta.

Það að gera landið að einu kjördæmi kallar að mínu viti alls ekki á að þriðja stjórnsýslustiginu verði komið á. Það er umræða sem þarf að fara miklu betur ofan í ef menn ætla sér að gera þá breytingu. Ég tel að sveitarfélögin í landinu geti svo sem tekið við ýmsum verkefnum frá ríkinu til viðbótar án þess að menn fitji upp á þeim hlutum og að hægt væri að breyta landinu í eitt kjördæmi til þess að kjósa þingmenn. Hins vegar tek ég undir að það að gera landið að einu kjördæmi á auðvitað líka að leiða til þess að þingið verði sjálfstæðara og verði meiri löggjafarsamkoma en það hefur verið og þjóni framkvæmdarvaldinu minna.

Ég ætla að ræða eitt mál enn, hæstv. forseti, og það er hin sérkennilega niðurstaða að menn ætli ekki að klára málið alveg núna heldur taka hluta af því síðar. Mig langar að beina spurningu til hæstv. forsrh.: Er þetta boðlegt fyrir hönd þingsins? Er hægt að fara heim af þingi, gera þinghlé, með þær aðstæður að kosningakerfið í landinu er lamað? Getur Alþingi Íslendinga boðið upp á það að ekki geti farið fram kosningar hvenær sem er?

Nú er ég ekki að halda því fram að vont ástand sé á ríkisstjórninni, að hún geti fallið eða eitthvað því um líkt. En það er ekki röksemd fyrir því að menn geti haft landið löglaust, að engin hætta sé á því að einhver glæpur verði framinn. Það eru ekki rök. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að svara þessu sérstaklega en hins vegar ætla ég að segja að mér finnst þetta ekki boðlegt. Ég held því fram að Alþingi þurfi að klára málið og fara í frí þegar það liggur fyrir að hægt sé að kjósa hvenær sem er, forsrh. geti t.d. tekið upp á því að rjúfa þing og efna til kosninga. Hann á að hafa þann möguleika í hendi sinni samkvæmt þeim lýðræðislegu reglum sem fyrir liggja. Það á að vera hægt að kjósa í lýðræðisþjóðfélagi hvenær sem er. Mér finnst að þetta verði að vera til umræðu, þ.e. hvort ekki verður að ganga leiðina til enda.

Það er eitt enn til viðbótar sem mig langar að nefna og það er þessi 5% þröskuldur sem er í lagafrv. um það hvenær menn fá úthlutað uppbótarþingsætum. Ég hef svo sem ekki neina algjörlega fastmótaða skoðun á því hvar þessi mörk eiga að liggja. Ég held að þau verði samt að liggja einhvers staðar. Að þau verði látin liggja þar sem fyrsti maður kemst að á eftir þeim sem nær kjördæmakjöri finnst mér kannski vera ansi lágur þröskuldur. Og 5% markið sem hér hefur verið nefnt liggur býsna nærri þeim sem við getum kallað náttúrulegu mörkum, sem voru í því kerfi sem hefur verið í gildi fram að þessu. Það höfum við séð í talningu oftar en einu sinni. Það var ekki gott hvernig því var fyrir komið og ég held því ekki fram að þetta sé besta niðurstaðan, en einhver prósenta þarf að vera þarna. En nú er ekkert um það að ræða að við getum breytt því. Niðurstaða þingsins liggur fyrir, við verðum að segja já eða nei. Og það hefur svo sem ekkert upp á sig að vera að ræða kannski svo mikið um breytingar frá þessu. Mín fyrsta hugsun um hvað mundi gerast í þessu máli var sú: Getum við tekið alvöruumræðu um að gera landið að einu kjördæmi undir þeirri umfjöllun sem fram fer um þetta fyrirkomulag?

Mér sýnist það ekki vera og þess vegna ætla ég ekki að lengja umræður um of. Ég held því hins vegar fram að við eigum að snúa okkur að því að fara vel yfir þær hugmyndir að gera landið að einu kjördæmi og leggja í það vinnu. Ég spái ekki vel fyrir því fyrirkomulagi sem nú á að taka upp. Það er ekki bara að þingmenn muni eiga mjög erfitt með að sinna þessum stóru kjördæmum, heldur mun fólkið í þeim eiga býsna erfitt með að átta sig á í hvers konar umhverfi það er komið. Ég býst ekki við að sú tilfinning að vera í Austfjarðakjördæmi eða Norðvesturkjördæmi flæði yfir menn eins og einhver sælutilfinning og að þeir verði nú allt í einu orðnir hluti af miklu stærri heild en þeir áður voru, heldur verði það nú einhvern veginn öðruvísi. Og það er ekki heldur víst að þeir þingmenn sem verða enn þá fleiri suður í Reykjavík og Reykjanesi verði endilega ánægðari með að kjördæmaþingmenn úr stóru kjördæmunum verði komnir með ígildi varaþingmanns eða einhvers konar umboðsmanns fyrir sig í kjördæminu þegar starfsmannaskrifstofurnar verða risnar upp. Nú er ég ekkert að mótmæla því að það verði nauðsynlegt ef menn á annað borð eru komnir yfir í þetta fyrirkomulag, en það verður allt öðruvísi umhverfi sem þingmenn í dreifbýlinu búa við en það sem aðrir þingmenn búa við eftir því sem mér hefur heyrst í þessari umræðu.