Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:23:35 (76)

1999-06-10 14:23:35# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:23]

Árni Gunnarsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins og í raun og veru er verið að taka á litlum hluta af miklu stærra máli. Það sem við erum að gera hér núna er að bregðast við ákveðinni byggðaþróun sem við þekkjum öll, fólksflutningaþróun sem er eitt erfiðasta og vandasamasta verkefni íslenskra stjórnmála á næstu árum og áratugum.

Það er nefnilega þannig að valdinu er skipt í þrennt eins og við þekkjum. Það er löggjafarvald, það er framkvæmdarvald og það er dómsvald. Við þurfum að huga mjög vel að því í framhaldinu hvernig framkvæmdarvaldinu er fyrir komið.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi óhagstæða byggðaþróun haldi áfram nema við skoðum rækilega hvernig framkvæmdarvaldið er í raun og hverjar þær aðstæður eru sem fólki eru búnar úti á landi. Það er ekki bara svo að fólk sé að flytja úr dreifbýli í þéttbýli heldur er fólk að flytja af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sem nú situr í forsetastóli sagði áðan. Ég held að þessi þróun haldi áfram ef við bregðumst ekki við henni. Ég fagna því að það verði gert. Ég fagna þeim áformum sem fram koma hjá formönnum stjórnarflokkanna um að bregðast við byggðavandanum og ég vona svo sannarlega að það verk gangi vel.

Í þessu frv. er kveðið á um að kjördæmi skuli vera fæst sex en flest sjö og að mörk þeirra skuli ákveðin í lögum, sem eru þá kosningalög. Það er afar vandasamt að útfæra þetta þannig að allir séu sáttir. Ég vil minna einungis eitt í þessu sambandi og það er að kjördæmin verða að vera þannig úr garði gerð að þau geti þjónað sínu hlutverki sem félagslegar einingar. Málið snýst ekki bara um yfirreið þingmanna um einstök kjördæmi heldur miklu frekar í mínum huga um það hvort hinn almenni borgari og hvort hinn almenni flokksmaður í stjórnmálaflokkunum hafi tækifæri og aðstöðu til þess að sinna félagslegu og pólitísku hlutverki sínu.

Þetta er það veganesti sem ég vil leggja inn í umræðuna og beini því þá til þeirra sem vinna að frv. um kosningalög og ég vona að þeim takist að vinna þannig að þessum málum að fullkomin sátt ríki, ekki bara á hinu háa Alþingi heldur meðal þjóðarinnar um þessi mál.