Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:26:50 (77)

1999-06-10 14:26:50# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:26]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að draga þessa umræðu á langinn, heldur aðeins nefna örfá atriði að gefnu tilefni. Fyrst get ég ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um ákaflega undarlega en satt að segja dæmigerða ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar um þessi mál og önnur. Það virðist vera orðin lenska, var það raunar á síðasta kjörtímabili og endurtekur sig núna, að sá ágæti hv. þm. telur það hlutverk sitt að vera hér á móti og ég bíð þess dags að hann byrji einhverja ræðu sína þannig: ,,Ég er sammála síðasta ræðumanni.`` Hvenær sá degur rennur upp veit ég ekki.

Hann gerði sér að leik að snúa út úr ræðu minni um þessi mál þar sem ég sagði að það mætti orða þá sátt sem hér ríkir um málið á ýmsa vegu, að kannski væri enginn algerlega ánægður og bætti síðan við að það mætti jafnvel orða þetta þannig að allir væru jafnóánægðir. Það má nálgast málið þannig með öðrum orðum að flaskan er annaðhvort hálffull eða hálftóm. Þetta gerði hann að sínum rauða þræði í þessari umræðu og ég frábið mér slíkan útúrsnúning, herra forseti, því að það sem ég var að segja og gerði held ég glögga grein fyrir, var að í þessari lotu hafa menn náð mjög markvissum og ákveðnum skrefum í þá átt sem að var stefnt og það var að draga úr misvægi atkvæða í fyrsta lagi. Í öðru lagi að gera kosningakerfið þannig úr garði að fólk í landinu skildi það. Og í þriðja lagi að jafnræði ríkti á milli flokka. Ég vil staldra aðeins við þann punkt því að hér hafa ýmsir talað þannig um jafnræði milli flokka að þar væri um einhvers konar klíkubönd að ræða milli stjórnmálaflokkanna í landinu. Það er verið að snúa veruleikanum á hvolf með slíkri nálgun málsins. Eru ekki allir sammála um það að stjórnmálaflokkarnir eða stjórnmálasamtök hvaða nafni sem þau nefnast eigi að fá þann þingmannafjölda sem atkvæðafjöldi þeirra segir til um? Þá erum við ekki að hugsa um þessi stjórnmálasamtök. Við erum að hugsa um það fólk sem kýs stjórnmálasamtökin, að það fái sína fulltrúa á Alþingi í samræmi við þann fjölda kjósenda sem að baki stendur. Með öðrum orðum er hér um lýðræðislegan grundvallarþátt að ræða í okkar stjórnkerfi og það er feikilega mikilvægur þáttur.

Ég vil rifja það upp í þessu sambandi því nú heyri ég kumra í hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, nýkjörnum formanni þingflokks Framsóknar, að hlutirnir voru nú þannig á hinu háa Alþingi að sá ágæti flokkur Framsfl. --- að vísu var hv. þm. ekki í honum þá --- hafði yfirrepresentasjón upp á tvo til þrjá þingmenn á síðari árum og enn meira á árum áður. Þegar menn leiðréttu það þá hafði það út af fyrir sig ekkert með það að gera að það hafði verið langvarandi pirringur milli stjórnmálaflokkanna heldur vildu menn hafa það þannig að ákveðnir flokkar, m.a. minn flokkur, Alþfl., forðum daga og nær í tíma, var undirrepresenteraður árum og áratugum saman. Kjósendur hans fengu ekki þann fjölda fulltrúa inn á hið háa Alþingi sem fjöldi þeirra gaf tilefni til. Lýðræðið var með öðrum orðum fótum troðið þannig að hér er um grundvallarþátt að ræða sem ég bið hv. þingmenn að fara höndum um og orðum undir þeim formerkjum og ekki reyna að snúa út úr.

[14:30]

Hér hef ég, með öðrum orðum, nefnt þrjú grundvallaratriði í málinu. Þá kem ég að umdeildasta og viðkvæmasta þætti málsins sem lýtur að skiptingu kjördæma og fjölda þeirra. Það hefur komið fram í þessari umræðu sem satt er að menn eru ekki að geirnegla hvar sú skipting verði eða nákvæmlega hvernig. Þó hafa menn sett niður ákveðinn fastan og niðurnjörvaðan ramma.

Stærsta og mesta gagnrýnisefnið er að dreifbýliskjördæmin verða svo stór að þingmönnum gefst ekki kostur á að fara um þau til að halda sambandi við kjósendur. Í öðru lagi, eins og hv. þm. Árni Gunnarsson kom inn á, verður sú stjórnsýslueining sem kjördæmin hafa verið ekki til staðar eins og fyrr.

Herra forseti. Nákvæmlega þessi atriði voru árið 1959, þegar það kosningakerfi sem við búum við í dag var tekið upp, hvað mest gagnrýnd. Þá þótti ýmsum þingmönnum, ef menn lesa þingræður frá þeim tíma, að kjördæmin í núverandi kerfi, sem var tekið upp 1959, yrðu allt of stór. Í þá daga var talið vonlaust yrði fyrir þingmenn að komast yfir það að halda sambandi við kjósendur sína, við atvinnulífið á viðkomandi stöðum o.s.frv. Þessar röksemdir eru því kunnuglegar.

Á þeim 40 árum sem liðin hefur orðið bylting í samgöngumálum, hrein og klár bylting, sem gerir það frekar mögulegt, fjarlægðanna vegna, að stækka þessi kjördæmi. Þarna eiga sér auðvitað stað akademískar vangaveltur. Ég minni á að ég kem úr kjördæmi þar sem kjósendur teljast í kringum 70 þús. eða þar um bil. Ég á ákaflega litla möguleika á því, þó ekki sé nú kjördæmið sérstaklega stórt í ferkílómetrum talið, að heimsækja alla vinnustaði. Ég hef enga möguleika á því að heilsa upp á alla kjósendur mína eða þekkja hag þeirra allra. Má þá ekki á sama hátt spyrja hvort möguleikar þingmanna þéttbýlisins séu fyrir borð bornir í þessu samhengi, í samanburði við þingmenn dreifðari byggða?

Þetta mál má því nálgast frá ýmsum sjónarhornum. Meginkjarni málsins er hins vegar þessi og honum hefur ekki verið mótmælt enda er ekki hægt að mótmæla honum. Ég held að allir þingmenn hafi með einum eða öðrum hætti komið að samþykktum stjórnmálaflokka sinna um að draga eigi úr misvægi atkvæða. Það er rækileg grein gerð fyrir því hjá hverjum einasta stjórnmálaflokki, gömlum og nýjum. Gamli Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert það á landsfundunum sínum. Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig nýi sjálfstæðisflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, hefur nálgast þetta mál. Ég heyrði ekki betur en að formaður þess nýja flokks, hins nýja sjálfstæðisflokks, hafi sagt það fullum fetum að það væri markmið sem skoða þyrfti og bæri að gaumgæfa, að draga úr misvægi því sem var 1:4 í síðustu kosningum.

Þetta er kjarni málsins og því hlýtur maður að gagnálykta og og spyrja þegar gagnrýnisraddir heyrast --- sem ég er ekkert að víkjast undan að svara --- um þá tillögu sem hér liggur fyrir: Hvaða aðra leið vilja menn fara? Hvaða önnur leið er fær sem hægt er að ná sátt um? Eru vangaveltur manna og gagnrýni byggðar á þeirri grundvallarhugsun að drepa málinu á dreif og gera ekki neitt?

Ég árétta, herra forseti, það sem ég sagði í minni fyrstu ræðu að alversta niðurstaðan væri að gera ekki neitt. Sú hefur verið niðurstaða hinnar miklu vinnu síðustu tvo eða jafnvel þrjá áratugi að þessum málum. Ég held að það séu jafnvel þrír áratugir síðan menn hófust handa við endurskoðun á núgildandi kjördæmaskipan og kosningalögum.

Að lokum, herra forseti, vil ég árétta og taka undir með þeim sem hafa velt því upp að það er ekki nógu góður blær á því að slíta svona í sundur kosningalög og þær breytingar á stjórnarskrá sem við eiga, sem við afgreiðum hérna á næstu dögum væntanlega. Það getur vel verið að það hefði tekið lengri tíma en á þessu vorþingi ættu menn að hafa til þess nægan tíma. Ég hefði talið betra að ljúka þessu máli núna. Ég hef dálitlar áhyggjur af því. Ég hef fullan skilning á því að nýkjörnir þingmenn mæti inn í þessa umræðu, auðvitað ekki með neinar byrðar á baki eins og við hinir sem tókum á þessu máli á síðasta kjörtímabili, og ræði málið hér akademískt og velti upp ýmsum flötum þess. Ég vil árétta að ég tel að þó að menn loki ekki kosningalagamálinu hér fyrir fullt og fast þá sé sá rammi sem afgreiddur verður á næstu dögum með stjórnarskrárbreytingu þannig að öll meginatriði þess samkomulags sem að baki voru í kosningalögunum sjálfum verði í fullu gildi. Ég hef miklar áhyggjur af því að við missum málið algjörlega úr höndum okkar sé þessi skilningur ekki alveg skýr.

Ég skildi hæstv. forsrh. þannig að hans skilningur er skýr. Ég hef að vísu ekki heyrt hinn stjórnarflokkinn hafa þennan skilning kláran en þetta eru að mínu mati grundvallaratriði málsins.