Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:40:04 (79)

1999-06-10 14:40:04# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:40]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur tapað fleiru en flokknum sínum á leiðinni milli flokka. Ég sagði aldrei að það væri ekki jafnræði á milli flokka eins og ástandið er í dag. Ég var að vísa til fyrri tíðar í þessu sambandi, hefði hv. þm. lagt við hlustir.

Það er auðvitað ljóst að núgildandi kerfi tryggir þennan jöfnuð milli flokka, sem ég vil kalla jöfnuð milli kjósenda flokka, til að halda því öllu til haga. Þetta andsvar hans er því algjörlega á misskilningi byggt.

Hann hefur hins vegar möguleika á því í síðara andsvari sínu að varpa ljósi á afstöðu þingflokks Framsfl. til málsins í dag, hins nýja þingflokks Framsfl. Má vænta þess að sá stuðningur sem þingflokkurinn veitti þessu máli á síðasta þingi sé enn til staðar? Hv. þm. gæti kannski upplýst hvort þess megi vænta, eins og hæstv. forsrh. lýsti því, að enn sé sátt um stjórnskipunarþátt málsins og öll meginatriði í kosningalagaþáttum þess, sem menn ætla að hefjast handa við nú í sumar á haustdögum. Það er mjög mikilvægt.

Ég vil bara til fróðleiks benda á, virðulegi forseti, þar sem sumir hafa velt því fyrir sér, að gott væri fyrir alla hv. þm. að ná sér í skýrslu nefndarinnar sem lagði drög að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Skýrslan er mikil að vöxtum og er að finna ýmsan fróðleik þar, nýjan og eldri.

Á bls. 16 í þeirri skýrslu velta menn því fyrir sér hvaða áhrif ný skipan mála, atkvæðavægið 1:1,7 sem er niðurstaðan hér, hefði á þingmannafjölda í núverandi kjördæmum. Það þýddi að Reykjavík fengi 23 þingmenn, Reykjanes 15, Vesturland 4, Vestfirðir 3, Norðurl. v. 3, Norðurl. e. 6, Austurland 4 og Suðurland 5. Takið eftir því að hvergi eru jöfnunarsæti nema hér í R-kjördæmunum tveimur. Með öðrum orðum: Kjósendur þeirra flokka sem ekki næðu inn þingmanni, við skulum segja á Vestfjörðum, væru að kjósa jöfnunarsæti í R-kjördæmunum.

Þannig á að draga úr misvægi atkvæða í núgildandi kjördæmaskipan, svo menn átti sig á því við hvers konar vanda er að etja í málinu.