Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 14:42:44 (80)

1999-06-10 14:42:44# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[14:42]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er feginn því að heyra að hv. þm. hefur dregið til baka þá fullyrðingu sem hann hafði uppi í ræðu sinni, að tilgangurinn með því að flytja þetta frv. væri að tryggja jöfnuð á milli flokka. Sá jöfnuður var fyrir og það hefur hann núna viðurkennt.

Mér finnst hins vegar rétt að benda á að menn eru einfaldlega að færa til þingsæti, af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Það er ekkert annað sem verið er að gera. Menn eru að gera breytingar á kosningalöggjöfinni, einvörðungu út frá búsetusjónarmiðum en ekki pólitískum viðhorfum þeirra sem eru í framboði fyrir einstakar stjórnmálahreyfingar. Menn eru að brjóta upp stjórnmálahreyfingarnar eftir búsetunni. Það tel ég fremur þrönga nálgun í þessu máli.

Ég bendi jafnframt á að menn hafa sagt nauðsynlegt að tryggja jafnt vægi atkvæða. Jafnt vægi atkvæða er undantekning í kosningalöggjöf í veröldinni. Reglan er sú að það er mjög misjafnt eftir kjördæmum. Hv. þm. hefur efalaust fengið upplýsingar um það þegar hann sat í nefndinni sem samdi þetta frv. Í velflestum löndum heimsins er verulegt misvægi atkvæða, í þeim skilningi sem hann leggur í þau orð. Mest er það í Bretlandi, í því landi sem Verkamannaflokkurinn fer nú með stjórn í. Fyrir liggur að Verkamannaflokkurinn er andvígur því að gera breytingar á lögum til kosninga hjá þeim og leggja af einmenningskjördæmin sem þar eru. Það er af þeirri einföldu ástæðu að menn líta svo á að kosningum í Bretlandi sé ætlað að tryggja meirihlutastjórn. Þeir haga því löggjöfinni með það fyrir augum. Markmiðinu um rétt til að kjósa er náð með því að hafa almennar kosningar.