1999-06-10 15:06:43# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli ríkisstjórnar Íslands, ríkisstjórnar Noregs og ríkisstjórnar rússneska sambandsríkisins um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs sem var undirritaður í St. Pétursborg 15. maí 1999. Enn fremur er leitað heimildar til staðfestingar á tvíhliða bókunum ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Noregs annars vegar og ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins hins vegar, sem gerðar eru samkvæmt samningnum og undirritaðar sama dag í sömu borg.

Samningurinn og bókanirnar fela í sér samkomulag um þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi og lausn á Smugudeilunni svonefndu sem oft hefur verið hér til umræðu á Alþingi og jafnframt í utanrmn.

Þríhliða samningur Íslands, Noregs og Rússlands er rammasamningur um samstarf aðila í sjávarútvegsmálum. Í tvíhliða bókunum Íslands og Noregs annars vegar og Íslands og Rússlands hins vegar felst að Íslendingar fá á þessu ári 8.900 lesta þorskkvóta sem skiptist til helminga milli lögsögu Noregs og Rússlands. Kvótinn samsvarar 1,86% af leyfilegum heildarafla þorsks í Barentshafi og helst það hlutfall út samningstímann. Auk þess er gert ráð fyrir 30% aukaafla. Samningurinn og bókanirnar gilda út árið 2002 og framlengjast um fjögur ár í senn, sé samningnum ekki sagt upp af hálfu einhvers aðilanna.

Í bókun Íslands og Noregs er gert ráð fyrir að íslensk skip veiði 4.450 lestir af þorski á þessu ári í norskri lögsögu. Norsk skip fá á þessu ári að veiða 500 lestir af löngu, keilu og blálöngu á línu í íslenskri lögsögu utan 12 mílna og sunnan 64°N. Þeim er einnig heimilt að veiða 17 þúsund lestir af loðnu í íslenskri lögsögu norðan 64°30´N á tímabilinu frá 20. júní til 15. febrúar. Kvótinn í löngu, keilu og blálöngu helst óbreyttur út samningstímann, en loðnukvótann ber að laga hlutfallslega að árlegum þorskkvóta Íslendinga.

Í bókun Íslands og Rússlands felst að íslensk skip geti veitt 4.450 lestir af þorski í rússneskri lögsögu á þessu ári. Þar af munu Rússar bjóða íslenskum útgerðum 37,5% af þessu magni eða tæplega 1.670 lestir til kaups á markaðsverði.

Í báðum þessum tilvitnuðu bókununum er miðað við að fari leyfilegur heildarafli þorsks í Barentshafi niður fyrir 350.000 lestir falli kvóti Íslendinga niður. Í því tilviki fellur kvóti Norðmanna í íslenskri lögsögu einnig niður.

Samkvæmt bókununum skulu Íslendingar ekki stunda loðnuveiðar í Barentshafi á þeim tíma sem samningurinn er í gildi. Ákvæði þetta er bundið við loðnuveiðar og nær því ekki til veiða úr öðrum stofnum í Smugunni.

Samningurinn öðlast gildi þegar aðilar hafa tilkynnt hver öðrum um að nauðsynlegri innlendri málsmeðferð vegna gildistöku hans sé lokið. Bókanirnar eru ekki formlegur hluti samningsins en eru spyrtar saman við hann að því er gildistöku og gildistíma varðar.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanrmn.