1999-06-10 15:20:05# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að svara því sem ég tel mig geta svarað af þeim spurningum sem hv. þm. bar hér fram. Í fyrsta lagi, að því er varðar markaðsverð á þeim hluta sem íslenskar útgerðir geta keypt í rússneskri lögsögu. Ég get ekki upplýst það og á þessu stigi get ég ekki metið hvert markaðsverðið verður. Við metum það hins vegar þannig að um sanngjarnt verð sé að ræða því Rússum er það mjög mikið í mun að fá fjármagn inn í sjávarútveg sinn og koma þessum veiðiheimildum í verð. Þeir munu áreiðanlega ekki stilla þessu verði það hátt að hætta verði á því að þeir fái ekki þessar greiðslur. Þau skip sem þessar veiðar stunda geta sóst eftir veiðiheimildunum. Í hvaða hlutfalli og hvernig það verður nákvæmlega gert hefur ekki verið ákveðið. Verði mjög mikil eftirspurn eftir því þá er eðlilegt að það verði í hlutfalli við þær veiðiheimildir sem hvert og eitt skip fær úthlutað, telji menn þessar veiðiheimildir þess virði að þeir vilji nálgast þær í hlutfalli við þær veiðiheimildir sem úthlutað er án þess að verð komi í staðinn.

Að því er varðar markaðsverð þessara veiðiheimilda þá getum við ekki sagt til um það eins og sakir standa. Það fer að sjálfsögðu eftir því hvernig þessar veiðar ganga, hver tilkostnaðurinn verður og hvaða áhugi verður á veiðunum. Það er alveg ljóst að hér er um veruleg verðmæti að ræða enda var ætlunin með samningnum að ná í réttindi til handa íslenskum fiskimönnum, íslenskum skipum sem hafa stundað þessar veiðar um langa hríð.