1999-06-10 15:46:00# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað eru rök með því að skerða þessar veiðiheimildir á nýjan leik. En ég minni á að hv. þingmenn eru líka að halda því fram að hér sé um litlar veiðiheimildir að ræða til þeirra skipa sem fá þessa úthlutun á grundvelli veiðireynslu sinnar. Ef síðan ætti að skerða þær til að skila til einhverra annarra þá minnkuðu veiðiheimildirnar.

Ég ætla ekki að halda því fram að útilokað sé að gera þetta öðruvísi. En út frá því hefur verið gengið að þau skip fengju veiðiheimildirnar sem hafa stundað veiðarnar á undanförnum árum með sambærilegum hætti og hefur verið í öðrum tilvikum. Það er almenna reglan.

Síðan ef ætti að fara að taka frá, m.a. vegna loðnunnar, þá minni ég á að það kemur til endurúthlutunar á loðnunni þegar fyrir liggur hvað hefur verið veitt af öðrum þjóðum. Það liggur fyrir að sú endurúthlutun kann að minnka vegna þeirra 17 þús. lesta sem þarna er um að ræða til handa Norðmönnum. Það er hins vegar ekki úthlutun sem loðnukvótinn hefur getað treyst á. Allt eru þetta matsatriði. Aðalatriðið hlýtur þó að vera þær veiðiheimildir sem íslenska þjóðin fær í Barentshafi.

Að því er varðar línuveiðarnar get ég alveg tekið undir að ákveðin rök eru í því máli. Það hlýtur að vera útfærsluatriði og umræðuatriði á næstunni hvort taka eigi tillit til slíkra raka og m.a. eitt af því sem rétt er að fjallað verði um á næstunni.