1999-06-10 15:52:13# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við kunnum þetta báðir nógu vel, ég og hæstv. utanrrh., til að þurfa ekki að eyða tíma í hver fer með hvaða verkefni á þessu sviði.

Svo vill til, herra forseti, að úthlutunin, sem reglugerðin gerir ráð fyrir í framhaldi af því að samningurinn hefur verið staðfestur í öllum aðildarríkjunum, er varanleg. Ég hef hvergi séð neinar vísbendingar um neitt annað en að um verði að ræða varanlega hlutdeild viðkomandi skipa í því magni sem samningurinn færir okkur hverju sinni. Eða hvað? Stendur nokkuð annað til? Ekki hef ég séð það.

Spurningin um endurgjald eða ekki endurgjald við upphaflega útreikninginn og úthlutunina er því afgreidd í eitt skipti fyrir öll. Annaðhvort er það gert þá eða aldrei. Ég held að það liggi þannig. Annaðhvort taka menn til hliðar eitthvert lítils háttar magn, þess vegna ekki nema 2--3% eða hvað það nú væri --- það var valið að hafa það full 5% þegar Reykjaneshryggurinn átti í hlut --- halda því eftir og úthluta því síðan með einhverjum skilgreinanlegum hætti til þeirra sem hófu veiðarnar, t.d. þeirra skipa sem veiddu fyrsta árið í Smugunni. Það gæti verið ein aðferð í þessu sambandi.

Ég held að mjög fróðlegt sé að heyra síðan í hæstv. starfandi sjútvrh., bæði vegna þess að hann er hæstv. starfandi sjútvrh. en líka vegna þess að svo vill til að sá hinn sami hæstv. ráðherra þekkir vel til forsögu málsins.

Ég fæ enn engan botn í það til hvers var verið að gefa út reglugerð í miklu bráðræði eins og gert var strax 10. maí, löngu áður en Alþingi tók þennan samning til umfjöllunar og þegar hvergi var farið að vinna að fullgildingu hans í neinu þjóðþinganna sem standa að honum. Hvað lá á? Hvaða fiskur liggur þar undir steini að fyrrv. sjútvrh. rauk til og gaf út reglugerð sem gefur til kynna hver skiptingin verði þegar samningurinn er kominn á koppinn? Hefði t.d. ekki verið nær að Alþingi hefði fengið samninginn til umfjöllunar og tekið hann fyrir bæði í utanrmn. og sjútvn. og getað látið álit sitt í ljós, t.d. gagnvart því hvort eðlilegt væri að beita heimildarákvæðum eða ekki? Ég gagnrýni þessa málsmeðferð.