1999-06-10 15:54:33# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[15:54]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er margt hægt að segja um það þingmál sem hér er til meðferðar. En í aðalatriðum er það þannig að þetta mál, þessi samningur, er hér til samþykktar eða synjunar. Annaðhvort samþykkja menn að veita heimildir til þess að fullgilda samninginn eða menn hafna honum. Það er þingmálið sem er til meðferðar.

Hitt atriðið sem hér hefur orðið mönnum mjög að umtalsefni er síðan hvernig þessum heimildum, sem verða til með þessum samningi, er ráðstafað innan lands og það er auðvitað okkar eigið mál, okkar eigið innanlandsmál hvernig það er gert. Þá koma upp ýmsar spurningar eins og þær sem menn hafa hér verið að velta fyrir sér. Hvernig á að úthluta þessum nýju aflaheimildum? Þannig vill til að margumrædd úthafsveiðilög veita ákveðin svör við því. Þau voru unnin í sérstakri nefnd, eins og hv. síðasti ræðumaður hefur getið um, sem starfaði hér frá hausti 1993 fram á vormánuði 1996 og skilaði frá sér því frv. sem nú er orðið að lögum, lögum um úthafsveiðar.

Þar eru ákveðnir möguleikar bæði á því að krefja þá sem fá slíkar veiðiheimildir um gagngjald sem kæmi til úthlutunar í öðrum flokkum skipa eða til annarra skipa, gagngjald af almennum veiðiheimildum. Hins vegar er möguleikinn fyrir hendi um svokallaðan frumherjarétt upp á allt að 5% til þeirra sem hófu umræddar veiðar, í þessu tilfelli úthafsveiðarnar í Barentshafi. Þess vegna hefði þetta hvort tveggja verið mögulegt.

En þetta var ekki gert og það er væntanlega að afloknu mati sem hefur farið fram í sjútvrn. af hæstv. þáv. ráðherra, ekki starfandi ráðherra, 10. maí, og á grundvelli allra fyrirliggjandi upplýsinga. Niðurstaðan er sem sé sú að þessar heimildir voru ekki notaðar og þá liggur það bara fyrir. Auðvitað má um það deila, það er sjálfsagt að gera það í öðru samhengi ef menn vilja en það er ekki rétt að gera það í beinu samhengi við það hvort menn vilja samþykkja eða staðfesta samninginn og það þingskjal sem nú liggur fyrir.

Af hverju var þetta gert 10. maí? Ég skal ekki fullyrða um það, ég tel að út af fyrir sig sé það ekki gagnrýnivert enda kemur náttúrlega ekki slík reglugerð efnislega til framkvæmda fyrr en eftir að Alþingi hefur staðfest samninginn og lokið öllum formsatriðum í því sambandi.