1999-06-10 16:13:05# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst leitt ef hv. þm. finnst tilraunir mínar til að svara honum hafa algjörlega mistekist. En ég er starfandi sjútvrh. og hef bréf upp á það til morguns. Þá kemur sjútvrh. á ný til starfa og mun að sjálfsögðu blandast inn í þetta mál eftir atvikum. Það er því tækifæri til að eiga orðaskipti við hann til að mynda á vettvangi þingnefndarinnar um þetta mál áður en málið verður afgreitt héðan úr þinginu.

Ég mun ekki beita mér fyrir neinum breytingum á því sem rétt til bærir sjútvrh. hafa ákveðið á meðan mitt bréf gildir, þ.e. til morguns, svo að því sé nú alveg svarað.

Hvort hægt er að afturkalla þessa reglugerð eða gera einhverjar efnisbreytingar á henni áður en hún kemur í raun til framkvæmda, er auðvitað spurningin sem menn ættu að velta fyrir sér, eins og hv. þm. gerði. Ég get ekki svarað því heldur, ég treysti mér ekki til að kveða upp úr með það. Það er jafnframt lögfræðilegt álitamál hvort hún er núna orðin bindandi með þeim hætti að ekki verði afturkallað. En vissulega er rétt að skoða þann möguleika ef menn á annað borð hafa áhuga á að gera þarna einhverjar breytingar. En það er þá verkefni sjútvrh. að vega það og meta þegar hann kemur til starfa á morgun.