1999-06-10 16:21:57# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hvað á þá að gera við síldina? sagði hv. þm. Einu sinni var uppi formaður Framsfl. sem heitir sem betur fer enn í dag hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson. Hann kom á flokksstjórnarfund fyrir þremur árum á Hótel Sögu og sagði þá, haldinn einhverjum innblásnum anda frjálslyndis, að vel mætti hugsa sér að norsk-íslenska síldin eða heimildir í henni yrði leigð. Hann sagði líka að það mætti hugsa sér að viðbótaraflaheimildir hér heima yrðu líka leigðar. Það er margt sem má hugsa sér, herra forseti.

Ég varð hrifinn af því sem hæstv. ráðherra sagði þá á þingi Framsfl. og ég held að við hefðum átt að gera það. Þá hefði leitt af sjálfu sér að við hefðum farið þá leið að leigja þetta. Ég fagna því að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að vel hefði mátt hugsa sér að leigja þann afla sem við fáum þarna.

Herra forseti. Það eru aukin rök fyrir því að við förum þá leið. Það er nefnilega ekki alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði fyrr í dag að við værum ekki stödd hérna í dag ef ekki hefði verið fyrir þá sök að íslenskir útgerðarmenn héldu þó skipum sínum þangað. (SJS: Það var engu að skipta.) Það er ekki bara vegna atgervis þeirra og að því leyti til er sá afli sem við megum taka þarna talsvert öðruvísi en sá afli sem við höfum með hefðbundnum hætti tekið við Íslandsstrendur innan efnahagslögsögunnar.

Það var nefnilega annað sem gerði það kleift að við fórum. Það var, í þeirri ríkisstjórn sem ég sat í, að þáv. sjútvrh. sem ætlaði að banna þessar veiðar, var kominn með reglugerðardrög og kynnti þær í ríkisstjórninni og það var sú ríkisstjórn sem hafnaði þeirri reglugerð. Með öðrum orðum ef ríkisstjórnin hefði þá ekki saman tekið þá ákvörðun hefðu engar slíkar veiðar orðið. (Gripið fram í.) Ég var víst kominn í ríkisstjórn þá. Ég var víst kominn í ríkisstjórnina, hv. þm., og var viðstaddur þessar umræður. Þetta var á 2. fundi mínum þar sem þetta var og ég sá viðureign hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar og Davíðs Oddssonar við þáv. sjútvrh. og hafði gaman af og gleymi því aldrei.

En með öðrum orðum er það vegna atgervis íslenskra útgerðarmanna en líka vegna frumkvæðis íslenskra stjórnmálamanna og þess vegna eru aukin rök fyrir því að íslenska ríkið noti þessa aðferð við að deila út kvótanum.