1999-06-10 16:24:26# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÁLÁ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:24]

Ásgeir Logi Ásgeirsson:

Hæstv. forseti. Rétt rúmur mánuður mánuður er liðinn frá kosningum og verð ég að segja að ekki bauð mér í grun er ég tók þátt í þeim slag í 4. sæti lista Sjálfstfl. í Norðurl. e. að ég mundi standa hér og tala á sumarþingi. Vil ég byrja á því að þakka kjósendum í Norðurl. e. þann stuðning er okkur var veittur.

Ástæða þess að ég gaf mig að pólitísku starfi fyrir Sjálfstfl. og þá um leið ástæða þess að ég stend hér í dag er að ég vil og ætla að tala máli hinna smærri byggða og sjávarútvegsplássa í landinu. Það er m.a. þess vegna að ég tek núna til máls en tilefnið er samningur sá er hér liggur fyrir varðandi lausn Smugudeilunnar.

Ég vil byrja á því að fagna því að þetta samkomulag milli þjóðanna liggur fyrir. Sennilega eru ekki margir sem hafa fengið að kynnast þessari deilu í eins miklu návígi og sá er hér talar en þegar deilan reis hvað hæst starfaði ég við fiskvinnslu í Norður-Noregi. Fékk ég að heyra það óspart að vera bölvaður sjóræningi fyrir það eitt að vera Íslendingur. Það er ekki gott þegar svo djúpstæðar deilur koma upp meðal grannþjóða og skaðar ekki eingöngu samstarf á sviði sjávarútvegs þjóðanna heldur smitar slíkt ástand út frá sér til mun fleiri þátta. Því er ánægjulegt að sjá að þetta mál er að fá farsælan endi.

Þó er eitt atriði sem ég er ósáttur við og vil koma inn á varðandi samninginn. Það lýtur að því hvernig að uppfyllingu okkar hluta samkomulagsins er staðið hér heima. Það eru að langmestu leyti vinnsluskip sem fá kvóta í Barentshafi með samningnum og það er að mínu viti mjög eðlilegt að þessi kvóti verði allur veiddur af vinnsluskipum, ekki síst vegna fjarlægðar fiskislóðarinnar og gæða aflans.

Það sem er hins vegar miður við þennan samning er að til að uppfylla okkar hluta hans tökum við aflahlutdeildir af þeim stofnum sem bátaflotinn hefur nýtt sér á heimaslóð og komið hefur til vinnslu í landi. Þau 500 tonn af löngu, keilu og blálöngu, sem verða mótframlag okkar handa norskum línuveiðurum til fullnustu samningsins eru því tekin af þeim útgerðarflokki, bátaflotanum, sem ber ekkert úr býtum í samningi þessum. Nú eru áðurnefndar tegundir ekki í kvóta og er nú þegar skipt að verulegu leyti með Færeyingum en engin spurning er um það í mínum huga að það að opna fyrir veiðar norskra línuveiðara mun skerða möguleika íslenska bátaflotans á afkomubata. Vona ég að á þessu máli verði tekið og það leiðrétt og ég vil beina því til sjútvrh. að svo verði gert.