1999-06-10 16:33:43# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur verið reynt að blanda þessum málum sem minnst saman, þ.e. málefninu um norsk-íslenska síldarstofninn, karfann á Reykjaneshrygg og veiðar í Barentshafi. Þetta eru afar flókin mál öll og það hefði reynst algjörlega ógerningur að mínu mati að leysa þessi mál ef við hefðum blandað þeim öllum í einn pott. Það gerir það hins vegar ekki að verkum að ekki sé hægt að vinna úr því á síðari stigum og auðvitað er vel hægt á síðari stigum að skipta á aflaheimildum í Barentshafi og Reykjaneshrygg, í síld eða öðru slíku. Það er ekkert sem útilokar það. Við höfum hins vegar talið mjög mikilvægt að fá heimildir til veiða í Barentshafi m.a. til þess að ná þar samstarfsmöguleikum við Rússa eins og hv. þm. benti réttilega á. Þar eru mjög miklir möguleikar sem við munum leggja mikla áherslu á að nýta okkur. Við munum á næstunni leggja á það áherslu að undirrita og fullgera sjávarútvegssamning milli Rússlands og Íslands sem er búinn að vera nánast tilbúinn alllengi og opna nýja möguleika í samskiptum við Rússland.

Það er alveg ljóst að þessi deila hefur staðið í vegi fyrir þeim samskiptum og er e.t.v. stærsta atriðið í þessu samkomulagi til lengri tíma litið. Þó að hér hefði vissulega verið gott að fá meiri veiðiheimildir þá tel ég að helsta verðmæti þessa samnings felist í samstarfsmöguleikum þjóðanna inn í lengri framtíð. Þar opnast m.a. möguleikar á því sem hv. þm. benti á, að menn deili hlutunum öðruvísi á milli sín, m.a. með tilliti til þeirra sjónarmiða sem hann setti hér fram.