1999-06-10 16:39:00# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:39]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að með samningnum fáum við að veiða á hagkvæmari hátt í lögsögu Noregs. En það breytir ekki þeirri grunnhugsun að í grundvallaratriðum er vont að gera samninga sem gefa mönnum tilefni til þess að koma til að mynda inn í okkar lögsögu. Við vitum alveg hvernig veiðar fara fram. Það er freisting fyrir útgerðir að ná í þó það sé ekki nema nokkur þúsund tonn inn í lögsögu annarra og það leiðir til annarra vandræða. Við vitum það. Þess vegna á að hafa að leiðarljósi, og ég árétta það eina ferðina enn, að reyna að beina öllum veiðum heimsins í strandveiðar, eins nálægt strönd og hægt er. Það er grundvallaratriði. Þess vegna eiga samningar af þessu tagi helst ekki að vera gerðir þannig að menn fái veiðiheimildir þó litlar séu inni í lögsögu t.d. Íslendinga. Ég tel það grundvallaratriði og er á móti því. Best væri ef það væri hægt að komast hjá því. Það á að miða alla samningagerð við það að menn veiði frá heimaslóð, frá sinni strönd og þar með í sjálfu sér líka að draga úr tilkostnaði við veiðarnar á heimsvísu. Það þjónar ekki hagsmunum okkar að flengjast út um öll höf eftir tiltölulega fáum tonnum. Það þjónar engum tilgangi og þess vegna eiga samningar að leiða til þess að draga hlutina heim og veiða frá ströndinni.