1999-06-10 16:41:06# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það er búið að ræða talsvert það mál sem hér er á dagskránni. Þó eru atriði sem ekki hefur verið komið inn á sem mig langar að spyrja um og vona að annaðhvort utanrrh. eða starfandi sjútvrh. eftir atvikum geti upplýst hvað hefur verið rætt í því sambandi og hvaða hættur menn telja að felist í því orðalagi sem ég ætla nú að vitna til.

Í fyrsta lagi segir í almenna kafla samningsins, í aðdraganda hans, um hina líffræðilegu auðlind í Barentshafinu, með leyfi forseta, að aðilar:

,,skuldbinda sig til að efla og stunda hafrannsóknir og grundvalla stjórnun sína á veiðum úr viðkomandi stofnum á bestu vísindaráðgjöf,

viðurkenna að umtalsverður hluti lifandi auðlinda í norðanverðu Noregshafi og í Barentshafi myndar eitt kerfi líffræðilegra stofna sem lýtur stjórn, ...``

Síðan segir í 1. gr.: ,,... sem byggjast á því að varúðarleið sé farin ...``

Ef við förum yfir þetta í samhengi þá velti ég eftirfarandi fyrir mér og spurningin lýtur að því: Ef Norðmenn teldu að þeir þyrftu að byggja hratt upp þorskstofninn í Barentshafi, er þá hægt með því að vitna til þessara orða sem hér standa að setja takmarkandi veiðar á rækju sem núna eru okkur frjálsar í Smugunni? Telja menn að þetta orðalag gefi Norðmönnum tilefni til að vitna til þess að Noregshaf og Barentshaf myndi eitt kerfi líffræðilegra stofna sem tengjast innbyrðis og á grundvelli þess verði t.d. hægt að minnka rækjuveiðar okkar eða jafnvel stöðva þær? Þetta er fyrsta spurning mín.

Síðan langar mig að fara yfir í rússneska hluta samningsins, þ.e. bókun ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Rússneska sambandsríkisins.

Þar er í 7. gr. talað um eftirlit sem Rússar mega beita á okkar skip. Þegar maður er búinn að lesa þennan texta þá sýnist mér að hann veiti rússneskum stjórnvöldum og eftirlitsmönnum algjört sjálfdæmi í því að fara um borð í okkar skip og beita sínum reglum og allt slíkt. Þá er mín spurning einfaldlega: Eru þessar reglur þekktar? Eru menn með það á hreinu hvernig rússnesku eftirlitsreglurnar eru, hvernig þær virka og hvernig þær snúa að íslenskum útgerðum? Og er búið að gera íslenskum útgerðum ljóst hvernig þessar reglur eru?

Ég taldi mig hafa fylgst nokkuð vel með þessu samningaferli, a.m.k. eins og ég gat, en mér er alls ekki ljóst hvaða reglur þetta eru, hvernig þær eru útfærðar og hverju við eigum von á í því sambandi. Þess vegna er spurning mín: Eru menn með það á hreinu hvernig þessar reglur eru útfærðar, hvernig þeim verður beitt, hvað þær munu kosta o.s.frv.?

Ég held að ég hafi mál mitt um þennan samning ekki mikið lengra. Fyrr í dag fóru fram umræður um hvað samningurinn kynni að kosta okkur. Auðvitað er ekki hægt að meta það beint til fjár. Þó má gera það að nokkru leyti gagnvart Norðmönnum. Við vitum að við þurfum að kaupa rúmar 1.600 lestir af Rússum á því kvótaverði sem þeir setja á sínar heimildir eða aðgang að þeirra lögsögu að þessum hluta aflans. En það sem við látum Norðmönnum í té má að nokkru leyti verðleggja, þ.e. hvað við greiðum. Þar segir að þeir megi veiða 500 lestir af keilu, löngu og blálöngu. Auk þess mega þeir vera með 5% á móti þeim afla af lúðu, hvítlúðuafla, þar að auki 10% af grálúðuafla á móti þeim afla og þar til viðbótar 10% í djúpkarfa. Þeir mega því vera með 25% meðafla ofan á þessar 500 lestir. Það er auðvitað hægt að áætla verðmæti þessa og síðan áætla verðmæti loðnukvótans. Það er þó kannski stundum sýnd veiði en ekki gefin, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að þær veiðar fara ekki fram sunnar en á 64°30´N og er þá kannski um hreinar bræðsluveiðar að ræða ef Norðmenn veiða þá þennan afla.

Þessu vildi ég bæta við umræðuna og óska sérstaklega svara við þessum tveimur atriðum um almenna kaflann og síðan um rússneska hlutann.