1999-06-10 16:49:37# 124. lþ. 2.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[16:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið en vegna orðaskipta sem hér hafa orðið um framkvæmd mála af okkar hálfu, þá fyrst og fremst þann hluta sem er á verksviði sjútvrh. þá verð ég að segja að því meir sem ég hugleiði samhengi þessara mála og reglugerða sem hæstv. ráðherra gaf út 10. maí sl. þeim mun meira undrandi verð ég. Ég leyfi mér að halda því fram, og verð að gera það vegna þess að ég hef verið að lesa saman þessa texta, að þessi reglugerð sé í raun og veru ónýtur gerningur og fái ekki staðist. Ég held að hún sé neðan við það sem er hægt að taka gilt frá hv. stjórnvöldum.

Það vill svo til að þessi reglugerð vísar í samning sem er ekki til. Þá á ég ekki bara við að átt hafi eftir að undirrita sjálfan aðalsamninginn, þó svo hann kunni að hafa legið fyrir í drögum með bókstöfum embættismanna þá er það ekki formlegur gerningur þar með. Það sem verra er er að í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar frá 10. maí, þeirri sem lá þessi lifandis ósköp á að gefa út tveimur dögum eftir kosningar, segir:

,,Til endanlegrar úthlutunar aflahlutdeildar samkvæmt reglugerð þessari kemur ekki fyrr en samningur íslenskra stjórnvalda við stjórnvöld í Noregi og Rússlandi frá 13. apríl 1999 hefur verið staðfestur í öllum ríkjunum.``

Slíkur samningur er ekki til. Það var enginn samningur gerður 13. apríl 1999. Utanríkisráðherrar landanna sendu frá sér yfirlýsingu um það að þeir væru efnislega sammála drögum að rammasamningi sem þá hafði verið útbúinn. Það er best að lesa þá hér upp úr texta greinargerðar með samningnum sjálfum en þar segir á bls. 2:

,,Haustið 1998 komst verulegur skriður á málið og voru þá haldnir þrír samráðsfundir aðila. Í kjölfarið fylgdu samningafundir og náðist samkomulag um almenn atriði rammasamnings 5. mars 1999 er utanríkisráðherrar Íslands og Noregs og varautanríkisráðherra Rússlands undirrituðu í Bodø yfirlýsingu þess efnis að þeir væru samþykkir drögum að rammasamningi ...``

Utanríkisráðherrarnir lýstu sig með yfirlýsingu samþykka drögum að rammasamningi, sem embættismenn höfðu útbúið og hafði enga þjóðréttarlega stöðu og gerningur utanrríkisráðherranna er kallaður yfirlýsing. Í reglugerð sjútvrn. frá 10. maí, fimm dögum áður en utanríkisráðherrarnir undirrita samninginn sjálfan í Rússlandi, er talað um samning. Menn geta kallað þetta hártogun en það er það ekki. Þetta eru ekki vinnubrögð sem eru sæmandi hinu háttvirta sjútvrn. Ég tel að þeim væri það sæmast að kalla þetta plagg til baka og þar með er staðan auðvitað opnari en ella til að gera það sem mönnum sýnist í þessum efnum. Ég tel að lögformlega sé það enginn vandi. Það getur ekki verið svo að útgáfa reglugerðar, sem þar á ofan stenst ekki, hefur ekkert gildi og kemur ekki til framkvæmda fyrr en þeim fyrirvara er fullnægt að stjórnvöld í Noregi, Rússlandi og Íslandi hafi staðfest samninginn, bindi hendur stjórnvalda þannig að ástæða sé til að hafa af því áhyggjur. Ég held að það geti varla verið nokkur möguleiki á því að það bakaði ríkinu skaðabótaskyldu þó það tæki þetta mál upp, gæfi út nýja reglugerð og legði þar aðra málsmeðferð til grundvallar. Ég mæli eindregið með því að það verði gert.

Vegna þess, herra forseti, sem ég tel að hafi afhjúpast í þessari umræðu, að embættisfærslan er með þessum endemum tel ég enn nauðsynlegra en ella að þingnefndirnar fari rækilega ofan í þetta mál, kalli fyrir sig ráðuneytið, fari yfir það og móti leiðsögn um hvernig eðlilegast sé að standa að málum. Eða er það ekki þingið sem á að ráða þessu? Er einhver með hugmyndir um eitthvað annað en að við getum ef okkur sýnist svo hér á Alþingi, löggjafarsamkomunni, mælt fyrir hvernig þetta skuli gert, t.d. með hvaða hætti úthafsveiðilögin skuli framkvæmd í þessu tilviki. Því það er auðvitað í höndum löggjafans eftir því sem löggjafanum sýnist að setja leikreglurnar í þessum efnum. Ég frábið mér allt tal um annað, að það eigi að vera duttlungar einhverra embættismanna, tilviljanakennd ráðherraskipti eða eitthvað annað því um líkt sem í aðalatriðum móti leikreglurnar í þessum efnum. Verði það niðurstaðan mun ég leggja til breytingar á þessum ákvæðum úthafsveiðilaganna, þá eru þau ónýt og þá sitjum við einfaldlega uppi með stjórnvöld sem eru ekki þeim vanda vaxin að móta reglur og skapa festu um framkvæmd mála af þessu tagi. Þegar heimildarákvæði eru sett inn jafnvel án þess að þau séu skilyrt eða þeim fylgi leiðsögn, þá eru þau ekki hugsuð til þess að stjórnvöld geti mótað lagaframkvæmdina þannig að hún ráðist af hreinum geðþótta. Fremur er það svo að mótaðar séu hefðir sem síðan festast í sessi og verða leikreglurnar sem byggt er á.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson fór ágætlega yfir það áðan hvílíkur hringlandi hefur verið í framkvæmdinni að þessu leyti. Það eru fjórar mismunandi útgáfur í gangi hvað varðar deilistofna eða hreina úthafsstofna þegar að framkvæmdinni kemur. Ein regla á flæmska hattinum, önnur á Reykjaneshrygg, sú þriðja varðandi norsk/íslensku síldina og hér er lögð til sú fjórða. Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur og það þarf ekki að fara um það fleiri orðum. Ég sé ekki annað, herra forseti, en öll efni séu til þess að Alþingi grípi í taumana ef stjórnvöld fallast ekki á að endurskoða þessa framkvæmd og hafa í samræmi við þá hefð sem þegar hefur mótast eða svo ásættanlegt geti talist.

Ég tel svo, herra forseti, að full ástæða sé til að rannsaka þessa embættisfærslu. Hvers vegna var rokið til og gefin út reglugerð sem þar á ofan stenst ekki, vísar í samning sem er ekki til, strax 10. maí, fimm dögum áður en skrifað er undir sjálfan samninginn? Hvers vegna rauk fráfarandi sjútvrh. til og gaf út reglugerð og batt hendur þess sem við átti að taka? Hvaða fiskar lágu þar undir steini? Var það til þess að búið væri að króa menn af fyrir fram og afgreiða það að hvorki yrði um endurgjald né frumherjareglu að ræða þegar til framkvæmdarinnar kæmi? Í raun er afar erfitt að sjá að fráfarandi sjútvrh. eða þeim sem á bak við hann voru hafi gengið nokkuð annað til með því að drífa út þessa reglugerð, en að ganga frá því fyrir fram, um leið og búið væri að kjósa, að svona skyldi þetta vera hvað sem mönnum sýndist síðar meir.

Að sjálfsögðu má breyta þessari reglugerð og það tel ég, herra forseti, að eigi að gera. Mér finnst óhjákvæmilegt að það verði hluti af meðferð málsins eins og allt er í pottinn búið.