Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 17:18:54 (125)

1999-06-10 17:18:54# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[17:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ástæða er til þess fyrir Alþingi Íslendinga og aðra að fagna því að nú hefur friður komist á og friðarsamkomulag verið undirritað um Kosovo. Það er afar mikilvægur áfangi og mikið fagnaðarefni. Nú fer í hönd mikið uppbyggingarstarf, mikið starf við að hjálpa flóttamönnum að snúa til síns heima, hjálpa þeim við uppbyggingu og hjálpa þeim að snúa sér að framtíðinni og nýju lífi og græða öll þau sár sem þarna hafa myndast. Það er mikið viðfangsefni og það er skylda okkar Íslendinga að taka þátt í því með sama hætti og við gerðum m.a. í Bosníu.

Ég hlýt vegna þessarar þáltill. að gera athugasemdir við ýmislegt sem þar stendur og þótt menn kunni að vera andstæðingar Atlantshafsbandalagsins, þá verða menn samt að gæta meiri réttsýni í þess garð þegar fjallað er um þetta mál. Í greinargerðinni er í upphafi t.d. sagt, með leyfi hæstv. forseta, að samþykkt hafi verið einróma á fundinum 23.--25. apríl í Washington ,,að bandalagið skyldi eftirleiðis grípa til hernaðaraðgerða utan eigin landsvæða án tillits til samþykkta öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.`` Hvar er þessi samþykkt? Hún er hvergi, enda er hún ekki til. Það er enga slíka samþykkt að finna í niðurstöðum leiðtogafundarins, en þar er aftur á móti lögð áhersla á að Atlantshafsbandalagið muni starfa í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í upphafi stendur líka að allar þessar aðgerðir hafi miðast við hagsmuni árásaraðilans eingöngu, og hver er árásaraðilinn að mati hv. flm.? Það er að sjálfsögðu NATO. Það er ekki minnst á Milosevic, og þegar lesið er áfram kemur það fram sem virðist vera talið upphaf þessara átaka, með leyfi forseta: ,,Sumarið 1996 greip Frelsisherinn til hernaðaraðgerða, einkum gegn serbneskum og júgóslavneskum lögreglusveitum sem upp frá því hafa ráðist harkalega á meintar bækistöðvar Frelsishersins og stuðningsmenn hans.`` Síðan segir:

,,Í febrúarmánuði á síðasta ári hörðnuðu átökin til muna. Hersveitir Serba og Júgóslavíu réðust á byggðir Kosovo-Albana með stórskotaliðsárásum ...``

Á að skilja það svo að flm. telji að það hafi verið Frelsisherinn sem hóf þetta stríð? Ég reikna með að flm. viti að þetta hrjáða fólk var svipt sjálfsstjórn sinni 1989, eins og kemur hér fram. Því var bannað að nota eigið tungumál. Öllum opinberum starfsmönnum var sagt upp og m.a. einn af þeim kennurum sem hingað hefur flúið fékk ekki að starfa í Kosovo. Þetta fólk var barið á götum úti og ekki gerður greinarmunur á neinum. Það var byrjað að ofsækja það fyrir mörgum árum og reynt var að útrýma því löngu áður en gripið var til þessara aðgerða.

Auðvitað var það mikið neyðarúrræði að grípa til þessara loftárása. En það var ekki fyrr en öll hefðbundin úrræði höfðu verið fullnýtt að ákveðið var að fara út í þetta og það var í fullkomnu samræmi við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er látið að því liggja að allt þetta hafi verið mótað af Atlantshafsbandalaginu, það hafi fyrst og fremst mótað þá stefnu sem samfélag þjóðanna hefur tekið í þessu máli. Það er ekki rétt. Þær meginkröfur sem máli skipta hafa verið ákveðnar á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær hafa verið ákveðnar í hópi tengslaflokks fimm ríkja, G-8 ríkja hópsins, auk þess sem stefnan hefur notið virks stuðnings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópusambandsins.

Mér finnst það alveg með eindæmum hvernig fjallað er um þetta mál. Ekki er t.d. minnst á það og flm. hefur láðst að geta þess að Milosevic Júgóslavíuforseti og aðrir forustumenn í Belgrad hafa verið ákærðir fyrir stríðsglæpi gegn mannkyninu af sérstökum óháðum stríðsglæpadómstóli sem settur var á stofn vegna fyrrverandi Júgóslavíu. Þetta liggur fyrir. Auðvitað liggur meginábyrgðin í þessu máli hjá stjórnvöldum í Belgrad en ekki hjá Atlantshafsbandalaginu eins og lesa má af þessari tillögu.

Auðvitað er úr vöndu að ráða í þessu máli en ég fullyrði að það hrjáða fólk sem nú fær vonandi möguleika á að snúa til heimkynna sinna metur það sem gert hefur verið. Það harmar auðvitað hvernig hefur farið og Milosevic og stjórnvöld í Belgrad eiga enga afsökun. Það er engin afsökun til á þessu jarðríki fyrir því að ráðast gegn saklausu fólki á þann hátt sem þar hefur verið gert. Og menn hljóta að spyrja þá sem gagnrýna þær aðgerðir sem farið var út í og hafa nú leitt til þess að loksins kemst á friður: Hvernig ætlaði hið alþjóðlega samfélag að horfa upp á þetta endalaust? Því að það kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar eða það mátti á honum skilja, að þetta hafi allt saman hafist, þessar ofsóknir fyrst og fremst, þegar Atlantshafsbandalagið réðst til atlögu. Það er ekki rétt. Þær aðgerðir voru hafnar fyrr og það voru hundruð þúsunda manna komin á flótta og voru á hrakhólum innan Kosovo. Það er staðreynd. Áttum við að horfa upp á það aðgerðalaust eða hver eru þau úrræði sem hv. flm. hefðu viljað hafa í þessu máli?

Í sjálfu sér finnst mér vera til lítils að horfa til baka þó að ég geti ekki annað en gert það að umtalsefni sem kemur fram í þessum málflutningi og hefur svo sem oft komið fram áður frá hv. þm. Nú er aðalatriðið að friður hefur komist á og okkur ber að hjálpa því hrjáða fólki til að byggja upp. Okkur ber einnig að hjálpa öðrum íbúum Júgóslavíu sem hefur líka orðið fyrir hörmungum. Það er mikið verk fyrir höndum. En sem betur fer hefur tekist að stöðva það ætlunarverk Milosevic að útrýma nánast þessu fólki. Það var ætlunarverk hans. En það hefur tekist að stöðva og vonandi gerist það aldrei aftur að aðilar eins og stjórnvöld í Belgrad geti ráðist með slíkum hætti gegn saklausu fólki og treyst því um leið að alþjóðasamfélagið geri ekki neitt. Það var það sem Milosevic treysti á. Það var von hans og trú að NATO gerði ekki neitt og ekki yrði staðið við þær hótanir sem voru settar fram. Hann treysti því að nægjanlega margir aðilar á Vesturlöndum gætu komið í veg fyrir að það yrði gert þannig að hann gæti haldið ætlunarverki sínu áfram án þess að nokkur brygðist þar við.