Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 17:27:59 (126)

1999-06-10 17:27:59# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[17:27]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að nú megi einræðisseggir heimsins fara að vara sig, nú sé aldeilis kominn karl upp á dekk sem ætli að siða þá til og það fái sko engir Milosevicar að vaða uppi hér eftir í heiminum, hann Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh. muni sjá til þess.

Ég held að hæstv. utanrrh. misskilji þetta ákaflega mikið, annaðhvort viljandi eða óviljandi ef hann heldur að tillaga okkar og málflutningur af því tagi sem ég hafði í frammi í framsöguræðu snúist um það að réttlæta gerðir Slobodans Milosevic, eða heyrði einhver mig segja eitthvað í þá veru? Er það gert í greinargerð með þessari tillögu? Nei, þvert á móti. Það er ekkert dregið undan í því að auðvitað er upphaf hluta í Kosovo m.a. að rekja til aðgerða yfirvalda í Júgóslavíu. Sú málsgrein á 2. bls. sem fjallar um aðdraganda átakanna hefst t.d. á því að segja: ,,Allt frá því að stjórnvöld í Belgrad afnámu sjálfsstjórn Kosovo-héraðs á árunum 1989--90 hefur ríkt mikil spenna í héraðinu. Löggjafarsamkoma héraðsins var þá leyst upp og það fært undir stjórn sambandsríkisins Júgóslavíu ...`` o.s.frv. Ég veit ekki annað en þarna sé algerlega rétt farið með og greint rétt frá upphafi þess sem síðar hefur leitt til vaxandi spennu í héraðinu.

Það er hins vegar líka rétt að upphaf vopnaðra átaka innan héraðsins rekja held ég flestir sem til þekkja til átaka milli Frelsishers Kosovo og lögreglusveita Serbíu. Það er líka staðreynd og má þá ekki nefna hana? Og þó að það sé þannig, herra forseti, að Júgóslavíumenn hafi framið stríðsglæpi og gott að þeir verði dregnir fyrir dóm fyrir þá, er þá þar með sagt að framganga NATO sé hafin yfir gagnrýni eða réttlæti það að gera hvað sem er ef einhver annar hefur brotið þannig af sér? Mér finnst hæstv. utanrrh. ekki ná að ræða þetta mál á það víðsýnum nótum að hann fallist á að fleiri hliðar en ein geti verið á þessu máli, að vegna þess að Slobodan Milosevic sé vondur maður og hafi gerst sekur um glæpi sé þar með bara ekki leyfilegt að gagnrýna það sem aðrir hafa gert. Það er það sem hér er verið að gera og ég tel að það eigi fyllilega rétt á sér.