Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 17:30:34 (127)

1999-06-10 17:30:34# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[17:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er leyfilegt að gagnrýna það sem Atlantshafsbandalagið hefur staðið fyrir en það hlýtur líka að vera leyfilegt að gagnrýna þá þáltill. sem er til umræðu. Það er hún sem er hér á dagskrá og við henni er ég að bregðast.

Í þessari þáltill. er hin nýja öryggismálastefna Atlantshafsbandalagsins líka kölluð ný hermálastefna. Liggur það ekki alveg ljóst fyrir að núna síðustu vikurnar hefur Atlantshafsbandalagið axlað mikla ábyrgð sem forustuafl á sviði mannúðaraðstoðar á Balkanskaga? Fóttamannavandinn þar hefur því miður reynst hjálparstofnunum ofviða og Atlantshafsbandalagið hefur skipt þar afar miklu máli. Það sem ég geri athugasemdir við í þessum texta er það að nánast ekkert er vikið að Milosevic, nánast ekki neitt. Það getur vel verið rétt að þessar vopnuðu aðgerðir gegn serbneskum og júgóslavneskum lögreglusveitum hafi hafist með Frelsishernum. En hvað átti þetta aumingjans fólk að gera? Átti það að horfa upp á það endalaust að börnin og konurnar og saklausir borgarar væru barðir og pyndaðir? Er það ekki við slíkar aðstæður sem slíkt verður til og eru það ekki þeir sem fara út í slíkar skelfilegar aðgerðir og virða ekki mannréttindi á nokkurn hátt sem skapa slíkar aðstæður? Hvernig hagaði Milosevic sér í Bosníu? Það kemur engum á óvart hvernig hann hefur hagað sér þarna, því miður. Við þetta geri ég miklar athugasemdir og allan málflutning hv. þm. í þessu máli frá upphafi til enda vegna þess að hann virðist ekki hafa lesið bærilega það sem kemur frá Atlantshafsbandalaginu eða þá að hann af gömlum vana les það allt öfugt. Ég veit ekki hvað er að en ég sé ekki betur en svo sé.