Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 17:55:20 (132)

1999-06-10 17:55:20# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[17:55]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sakna þess ofurlítið að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson skyldi ekki tjá sig örlítið um annað efni sem ég vék að í ræðu minni, þ.e. um Kúrda í Tyrklandi, og afstöðu hans til ofsókna gegn þeim. En eins og við vitum hafa þorp þeirra verið brennd og jöfnuð við jörðu, tunga þeirra bönnuð og fréttir berast af reglulegum ofsóknum og aftökum.

Hæstv. forsrh. segir að ég hafi ekki haft hálfa setningu fyrir fórnarlömb Serba í Júgóslavíu (Forsrh.: Hálfa. Þú hafðir hálfa.) Hálfa. Sjálfur hafði hann ekki eina setningu, enga setningu um afleiðingar eigin verka, um afleiðingar ofbeldisins sem NATO hefur beitt á Balkanskaga. Og það er þetta ofbeldi sem er til umræðu hér í dag.

Við verðum að vera menn til þess að horfa líka í eigin rann og vera gagnrýnin á það sem við erum ábyrg fyrir. Það sem við erum að hvetja til með þessari þáltill. er að fram fari umræða um þessi efni. Ég hef gagnrýnt að það var ekki gert á Alþingi. Það var ekki gert í utanrmn. þingsins. Um þessa alvarlegu hluti á að sjálfsögðu að ræða og við erum að hvetja til þess að skapaður verði vettvangur fyrir slíka umræðu. Sú er okkar krafa.

En hitt finnst mér ömurlegt að menn skuli ekki hafa burði til þess að horfast í augu við afleiðingar eigin verka. Það er sorgleg staðreynd.