Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 18:00:44 (135)

1999-06-10 18:00:44# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[18:00]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Nítján lýðræðisríki Evrópu hafa staðið saman sem einn maður um þessar aðgerðir. Í þessum lýðræðisríkjum, 19 ríkjum sem öll búa við lýðræðislegt skipulag auðvitað, eru ríkisstjórnir víða að úr stjórnmálalegu litrófi Evrópu. Þau ná öll saman. Og hvers vegna? Vegna þess að þau skildu og skynjuðu að þau risu ekki undir nafni sem lýðræðisríki, sem meðlimir öflugasta varnarbandalags veraldarinnar, ef þau létu þau glæpaverk viðgangast í Kosovo sem framin voru í Bosníu.

Mér finnst einsýnt að ef menn með hugarfar þeirra ágætu hv. þingmanna sem hér hafa talað hefðu verið við stjórnvölinn í einhverju þessara ríkja þá væri engin von í Kosovo. Það færu örugglega fram viðræður í starfshópum og umræðuhópum. Mjög gagnlegt. En það væri engin von í Kosovo. Ekki nokkur.

Við horfðum upp á þessar ógnir og tókum okkar þátt að axla þá ábyrgð sem við eigum að rísa undir sem meðlimir í hinum lýðræðislega hluta heimsins. Ég er ánægður með að við hæstv. utanrrh. vorum í því kompaníi en ekki einhverju öðru.