Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 18:18:49 (137)

1999-06-10 18:18:49# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[18:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Að mínu mati hefur hér farið fram nokkuð sérkennileg umræða um þessi mál á þeim degi sem friður næst í þeim hræðilegu átökum sem þarna hafa átt sér stað. Það er að sjálfsögðu aðalatriðið að um það hefur náðst samkomulag að Serbum ber að koma hersveitum sínum í burtu á næstu ellefu dögum. Héraðinu verður skipt upp í þrjá hluta og eftir því sem best er vitað hefur brottflutningur hersveita Serba þegar hafist, a.m.k. frá nyrsta hluta þess.

Nú stendur yfir fundur í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og beðið er eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna heimili inngöngu friðargæslusveita vesturveldanna inn í héraðið. Og það er vonast eftir því að kosið verði um það í öryggisráðinu síðar í dag. Vonandi fer svo að engin þjóð beiti neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir það. Ég hef ekki trú á því. En við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að eðli öryggisráðsins er þannig að ákveðnar þjóðir hafa þar neitunarvald.

Friðargæslusveitir NATO munu að öllum líkindum fylgja fast í kjölfar hersveita Serbanna, m.a. til að koma í veg fyrir að Frelsisher Kosovo reyni að neyta færis til að ráðast á hersveitir Serba, en þeir telja sig hafa mikilla harma að hefna. Og mikil hætta er á því að svo geti orðið.

Áætlað er að allt að 50 þúsund manna friðargæslulið á vegum Atlantshafsbandalagsins fari inn í Kosovo og ég vænti þess að hv. flm. telji það ekki vera árásaraðila, þó að talað sé um árásaraðila í þessari þáltill. Er nema von að menn bregðist við því þegar slík öfugmæli eru höfð í frammi?

Það er hins vegar ekki búist við því að flóttamenn snúi heim til Kosovo fyrr en tryggt er að framkvæmd friðarsamkomulagsins verði hnökralaus. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að friðargæsluliðið fari á undan, taki verulega áhættu til þess að tryggja það að þetta hrjáða fólk geti snúið til síns heima og búið sig undir komandi vetur. Og það mun þurfa að nýta tímann vel til þess að svo geti orðið.

Ákveðnar hafa verið sérstakar aðgerðir til þess að tryggja betur öryggi íbúanna á Balkanskaga. Það er mikil þörf á því. Þetta er ekki búið mál. Við Íslendingar erum nú í forustu í Evrópuráðinu. Það er alveg ljóst að Evrópuráðið þarf að koma að þessu máli með ýmsum hætti. Eitt af því sem við stöndum frammi fyrir á næstu vikum er m.a. að vinna að því að Bosnía komi inn í Evrópuráðið með það í huga að tryggja betur mannréttindi þar til frambúðar því að það hefur alltaf verið hætta á því að átök blossi upp á nýjan leik í því hrjáða landi og er að sjálfsögðu mikilvægt að koma í veg fyrir það.

Að því er varðar lögmæti þessara aðgerða og umræður um þær í utanrmn. þá liggur ljóst fyrir að í október sl. ákváðu Atlantshafsbandalagsríkin að stofna hugsanlega til loftárása á Júgóslavíu. Það mál var þá rætt bæði í ríkisstjórn og í utanrmn. og farið yfir það. Þessar hernaðarlegu aðgerðir sem þarna hafa átt sér stað byggja á þjóðréttarlegum grunni. Þær byggja á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1199 frá 23. september sl., markmiðum og meginreglum sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem vitnað er til, það er vitnað til þessa sáttmála í inngangsorðum Norður-Atlantshafssamningsins. Og þessar aðgerðir byggja líka á ákvæðum alþjóðlegra sáttmála um grundvallarmannréttindi.

Þetta síðastnefnda atriði vegur stöðugt þyngra í þjóðarréttinum. Mannréttindi eru algild og ekki er hægt að vanvirða mannréttindi eins og mönnum sýnist. Það er ljóst að þróunin er í þá átt að alþjóðasamfélagið þarf að vera viðbúið að grípa þar inn í.

Ég er alveg viss um að þessir atburðir munu hafa áhrif á störf Sameinuðu þjóðanna og ég vonast til að það verði til þess að styrkja starf Sameinuðu þjóðanna og auka heimildir þeirra til þess að grípa inn í og koma í veg fyrir að einstakar þjóðir geti beitt neitunarvaldi.

Nú heyri ég að hv. þingmenn mæna mjög til Sameinuðu þjóðanna í þessu sambandi. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að hans skoðun væri sú að byggja hefði átt að miklu meira á starfi Sameinuðu þjóðanna og miklu meira starf hefði átt að fara fram innan Sameinuðu þjóðanna. Ég man ekki betur en að sá sem hér stendur hafi verið harðlega gagnrýndur í sambandi við málefni Íraks. Þar hefur fyrst og fremst verið byggt á vinnu Sameinuðu þjóðanna og byggt á heimildum frá Sameinuðu þjóðunum. Samt hefur hv. þm. haldið því fram að það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt sér fyrir þar brjóti sáttmála, mig minnir að hann hafi vitnað til Genfarsáttmálans. Það hefur því verið uppi annar málflutningur í því sambandi þegar það mál hefur verið hér á dagskrá, ef ég man rétt. Þess vegna finnst mér ekki vera neitt samræmi í þessu.

Alveg eins og þeir sem vildu aðgerðir bera ábyrgð á því sem þarna hefur gerst --- það gerir íslenska þjóðin að nokkru leyti og við verðum að axla þá ábyrgð --- þá hljóta þeir líka að bera einhverja ábyrgð sem ekki vildu grípa til aðgerða í þessu samhengi, sem ekki hafa sýnt fram á hvað hefði gerst ef þarna hefði ekki verið gripið í taumana. Það fylgir því nefnilega líka ábyrgð að gera ekki neitt. Það fylgir því ábyrgð að sitja heima, sitja hjá, vegna þess að menn vilja komast hjá óþægindum. Þeir aðilar bera líka ábyrgð, en ekki bara þeir sem ákveða að grípa til aðgerða til þess að verja fólk sem hefur verið svipt grundvallarréttindum, grundvallarréttinum til að lifa lífinu.