Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 18:27:07 (138)

1999-06-10 18:27:07# 124. lþ. 3.1 fundur 4. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 124. lþ.

[18:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að því fylgir ábyrgð að sitja heima og það fylgir því líka ábyrgð að fara að heiman og hvað menn gera þegar að heiman er komið.

Ég vil taka undir það sem hæstv. utanrrh. sagði að ég og við innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum lagt áherslu á að styrkja Sameinuðu þjóðirnar og að þær starfi á lýðræðislegan hátt. Við höfum jafnframt sagt að Sameinuðu þjóðirnar sem stofnun eru engan veginn hafnar yfir gagnrýni. Ef við teljum að Sameinuðu þjóðunum sé misbeitt, eins og gerðist því miður að okkar dómi í Íraksdeilunni --- við teljum að Sameinuðu þjóðunum hafi þar verið misbeitt af hálfu öryggisráðsins --- þá gagnrýnum við það, því það er líka rétt sem hæstv. utanrrh. sagði, að mannréttindin eigi að vega þungt. Og það er út frá því sjónarhorni sem við nálgumst stríðsreksturinn á Balkanskaga en einnig í Írak.