Kostnaður við vegagerð vegna kristnitökuhátíðar á Þingvöllum

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 13:39:44 (145)

1999-06-14 13:39:44# 124. lþ. 4.1 fundur 47#B kostnaður við vegagerð vegna kristnitökuhátíðar á Þingvöllum# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[13:39]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Kostnaður við vegagerð í tengslum við Þingvelli kemur fram, ef ég man rétt, í tillögum Vegagerðarinnar sem voru kynntar fyrir tveimur árum eða svo. Ég verð að hafa fyrirvara á þessum tölum en mig minnir að 90 millj. hafi verið lagðar til hliðar sérstaklega vegna aðgerða í tengslum við hátíðahöld, ekki eingöngu á Þingvöllum þó heldur og á tengileiðum við Þingvelli. Ég verð eins og ég segi að hafa fyrirvara á þessum tölum, þær eru eftir minni en ég leyfi mér þó að fullyrða að þær vegaframkvæmdir sem taldar voru brýnastar samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar sem kynntar voru bæði ríkisstjórn og þinginu, munu ganga fram í tæka tíð þannig að við munum ekki lenda í slíkum ógöngum sem við lentum í vegna vegatengingarvandamála árið 1994.