Gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 13:44:55 (150)

1999-06-14 13:44:55# 124. lþ. 4.1 fundur 49#B gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. nýskipaðan samgrh. hvað líði undirbúningi að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. mars sl. um gerð langtímaáætlunar í jarðgangagerð á Íslandi. Nefndan dag samþykkti Alþingi svohljóðandi ályktun:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin feli í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Áætlunin liggi fyrir áður en lokið verður við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar.``

Ef minni mitt svíkur ekki, þá á sú endurskoðun að fara fram einmitt í vetur. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh.:

Hvar er undirbúningur að framkvæmd þessarar ályktunar Alþingis á vegi staddur?

Í öðru lagi vil ég spyrja um tengsl vinnunnar við endurskoðun þessarar vegáætlunar og þess vegna langtímaáætlunar um vegagerð sem væntanlega þarf einnig að fara að huga að og hæstv. ráðherra hlýtur að hafa í undirbúningi.

Síðast en ekki síst vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

Mun hæstv. ráðherra leita eftir tilnefningum frá fulltrúum þingflokka eða stjórnmálaflokka til að taka þátt í þessu starfi þannig að um þverpólitíska skipan nefndarinnar verði að ræða til þess að reyna að skapa meiri samstöðu um þessi mál en verið hefur að undanförnu?

Það er óþarfi að minna á hvernig þessir hlutir gengu fyrir sig á síðustu vikum og mánuðum fyrir kosningar þegar hetjur riðu um héruð og lofuðu jarðgöngum út og suður. Þá blés ekki mjög byrlega með að gott samkomulag eða samstaða tækist um hvernig í þessa hluti yrði farið.

Ég vil láta það koma fram að ég tel ákaflega mikilvægt að reyna að leita sem víðtækastrar samstöðu um þessi mál og hvet að sjálfsögðu hæstv. ráðherra til að leita eftir þverpólitískum tilnefningum í þetta starf.