Gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 13:47:07 (151)

1999-06-14 13:47:07# 124. lþ. 4.1 fundur 49#B gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[13:47]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Því er til að svara vegna fyrirspurnar hv. þm. að ég hef átt fundi með vegamálastjóra og mönnum hans til að fara yfir stöðu mála hvað varðar undirbúning að þessari áætlun um jarðgangagerð. Þetta starf er margþætt, eins og kom fram hjá hv. þm., og er að mörgu að hyggja þegar teknar eru ákvarðanir um forgangsröðun um þessar framkvæmdir. Þetta starf er mjög skammt á veg komið en engu að síður er unnið að því fullum fetum og ég vænti þess að áður en langt um líður verði hægt að taka afstöðu til þess hvernig framhaldið verður unnið. Auðvitað verður það að vinnast í tengslum við vegáætlun, sem verður til endurskoðunar í vetur, en ég hef út af fyrir sig ekki tekið afstöðu til þess hvernig áætlun um jarðgöng tengist vegáætlun eða langtímaáætlun. Um það þarf að fjalla og fara rækilega ofan í þá hluti hvernig það gerist. Annars vegar getur þetta gerst þannig að áætlunun um jarðgöng sé hluti af vegáætluninni en jafnframt mætti hugsa sér að það væri sérstök áætlun. En þetta þarf að skoða mjög rækilega.

Hvað varðar tilnefningu fulltrúa frá stjórnarflokkunum hef ég ekki tekið ákvörðun um það en hef heyrt þá ábendingu sem hefur komið fram hjá hv. þm.