Skólastjórastöður í Vesturbyggð

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 13:50:29 (153)

1999-06-14 13:50:29# 124. lþ. 4.1 fundur 50#B skólastjórastöður í Vesturbyggð# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[13:50]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í einu af dagblöðum landsins birtist nú um helgina auglýsing frá einu af þeim byggðarlögum hér á landi sem standa hvað verst fjárhagslega. Nú virðast forráðamenn þess byggðarlags hafa séð ljósið því að þeir auglýsa nýja og spennandi stöðu, stöðu skólastjóra sem á að hafa eina fjóra skóla undir og ekki er meiningin, að mér er tjáð, að hann hafi aðsetur í neinum þeirra heldur á bæjarskrifstofunum og stjórni þaðan öllum fjórum skólunum. Í þeim verði svo komið fyrir einhverju sem heitir aðstoðarmaður skólastjóra. Þau embætti verða að sjálfsögðu líka afar spennandi en þau hafa ekki enn verið auglýst.

Þegar ég lít á þetta mál finnst mér að þarna hljóti að vera fjallað um erlenda skóla sem alls ekki heyri undir þau lög sem við höfum samþykkt frá Alþingi Íslendinga og heita ,,Lög um grunnskóla`` og menntmrh. ber höfuðábyrgð á. Að vísu er í 3. gr. kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt að koma á seljum frá aðalskóla. Að öðru leyti verður ekki annað lesið úr textanum en að grunnskóli sé skóli þar sem öll starfsemi er á einum stað undir stjórn skólastjóra. Starfsheitið ,,aðstoðarmaður skólastjóra`` fyrirfinnst ekki í lögverndunarlögunum.

Síðast en ekki síst segja grunnskólalög í 23. gr. að í hverjum skóla skuli starfa skólastjóri sem ráðinn er af sveitarstjórn. Skv. 14. gr. grunnskólalaga er skólastjóri forstöðumaður grunnskóla og ber ábyrgð á starfi skólans og veitir honum faglega forstöðu.

Það fer í bága við þessa grein að skólastjóri sitji á bæjarskrifstofunum og stjórni fjórum grunnskólum.

Hvað hyggst hæstv. menntmrh. gera til að fá bæjaryfirvöld í Vesturbyggð til að fara lögum í þessu máli?