Yfirheyrslur yfir börnum út af kynferðisbrotum

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:03:11 (165)

1999-06-14 14:03:11# 124. lþ. 4.1 fundur 53#B yfirheyrslur yfir börnum út af kynferðisbrotum# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:03]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hugmyndafræðin á bak við Barnahúsið sem var opnað 2. nóvember sl. er að barn sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þurfi aðeins að koma á einn stað til rannsóknar og njóti umönnunar í vernduðu umhverfi. Höfuðáhersla er lögð á þverfaglega samvinnu barnaverndarnefnda, lögfræðinga, lækna og starfsfólks. Þegar barnaverndarnefnd hefur vísað máli til Barnahúss fer fram rannsóknarviðtal sem sérmenntaður starfsmaður tekur í umboði lögreglu.

Hjá Barnahúsinu starfa tveir starfsmenn, sérmenntaðir á þessu sviði. Aðstaða er fyrir lögreglu, barnaverndarfulltrúa, lögfræðings hins grunaða og fulltrúa ákæruvalds að fylgjast með. Eftir rannsóknarviðtalið er framhald málsins metið en í Barnahúsinu fær barnið og fjölskylda þess ráðgjöf, stuðning og meðferð.

Þann 1. maí sl. tóku ný lög gildi þar sem lögreglu ber að leita til dómara þegar kynferðisafbrotamál koma upp. Frá 1. maí hafa dómþing því verið sett í Barnahúsi í þessum tilvikum. Dómarar hafa komið í Barnahúsið sem fellur að hugmyndafræðinni sem liggur að baki Barnahúsinu.

Föstudaginn var bárust fréttir um að innréttaður hafi verið sérstakur dómsalur við Héraðsdóm Reykjavíkur og sérútbúið herbergi með tækjabúnaði til að gera kleift að taka skýrslu af barni eða ungmenni sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Þess vegna spyr ég dómsmrh.:

Er verið að flytja þessi viðkvæmu rannsóknarviðtöl frá Barnahúsinu? Munu dómarar utan Reykjavíkur líka taka upp þessi vinnubrögð í stað þess að tryggja að rannsóknarviðtölin fari fram í vernduðu umhverfi Barnahúss? Verður það gert þó það brjóti í bága við hugmyndafræðina á bak við uppbyggingu Barnahúss sem hefur vakið víðtæka athygli? Og hvernig á að tryggja sérhæfða viðtalstækni sem rík þörf er á í svo viðkvæmum málum?