Yfirheyrslur yfir börnum út af kynferðisbrotum

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:05:26 (166)

1999-06-14 14:05:26# 124. lþ. 4.1 fundur 53#B yfirheyrslur yfir börnum út af kynferðisbrotum# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:05]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. fyrirspyrja um að svipuð hugmyndafræði er á bak við þessa aðstöðu sem nú er búið að koma upp í Héraðsdómi Reykjavíkur og í Barnahúsinu.

Það rétt að í Barnahúsinu er fyrir hendi ákveðin aðstaða og hefur hún vafalaust komið að góðum notum og mun væntanlega gera það áfram, ekki síst í tengslum við barnaverndarmál. Ég tel það í sjálfu sér fagnaðarefni að komið sé sem víðast til móts við þarfir barna í þessu þjóðfélagi og ég er viss um að hv. fyrirspyrjandi er mér sammála í því sambandi. Ég tel að þetta sé mikið framfaraspor í þá veru að tryggja betur réttarstöðu brotaþola, ekki síst barna.

Þessi aðstaða er ekki bara hugsuð til yfirheyrslu yfir börnum heldur líka í öðrum viðkvæmum málum, t.d. nauðgunarmálum og aðstaðan tengist, eins og hér hefur verið skýrt frá, breytingum á lögum um meðferð opinberra mála sem fóru í gegn á síðasta vori þannig að nauðsynlegt var að bregðast hér við. Það er búið að bjóða dómstólum alls staðar á landinu að nýta þessa aðstöðu. En eins og ég sagði áðan þá tel ég fagnaðarefni að hér sé á sem flestum stöðum komið til móts við hagsmuni barna hvað þetta varðar.