Byggðavandi og staða fiskverkafólks

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 14:29:00 (174)

1999-06-14 14:29:00# 124. lþ. 4.92 fundur 44#B byggðavandi og staða fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[14:29]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fyrirtækin á Þingeyri, Bíldudal og Bolungarvík sem síðustu daga hafa verið til umræðu komu á sínum tíma í stað fyrirtækja sem áður héldu uppi atvinnu á þessum stöðum með útgerð og fiskvinnslu. Útgerð þeirra var öll lögð af og veiðirétturinn, fjöreggið sjálft, erfðaréttur byggðarlagsins mann fram af manni var seldur í burtu. Þarna er nú verið að reyna að reka fyrirtæki án veiðiréttar og það verður erfiður róður.

Ábyrgðin á því ástandi sem hér er lýst ber hv. Alþingi. Hér hefur það rekstrarumhverfi verið skapað sem er í útgerð og fiskvinnslu í dag. Hér var mönnum gefinn rétturinn til að selja lífsgrundvöll byggðanna í burtu. Hér voru frystiskipunum færð forréttindi fram yfir önnur útgerðarform. Hér varð eyðibyggðastefnan til. Hér hafa engin svör fengist við því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að meðhöndla vandamál byggðarlaganna á Vestfjörðum og þau vandamál sem munu halda áfram að koma fram í dagsljósið á meðan eyðibyggðastefnan er rekin. Eyðibyggðastefnan sem felst í því að örfáum hefur verið fenginn réttur til að selja lífsgrundvöllinn í burtu.

Mig langar til að bæta við spurningar til hæstv. ráðherra. Í viðtali við hann í Morgunblaðinu kom fram að svo virðist vera að hann líti á það sem hefur verið að gerast í byggðarlögunum sem voru talin upp áðan sem nauðsynlega hagræðingu og eðlilegar breytingar. Ég vil að hann svari því hvort hér er rétt eftir haft.

Í öðru lagi. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að jafna samkeppnisaðstöðu landvinnslu og vinnslu verksmiðjuskipa? Mun hann vilja láta skoða það mál?

Í þriðja lagi. Telur ráðherra ástæðu til þess að samkeppnisráð skoði hvort greina beri á milli útgerðar og fiskvinnslu hjá þeim fyrirtækjum sem reka bæði útgerð og fiskvinnslu? Það er ástæða til að spyrja eftir meðhöndlun ráðsins á GSM-þjónustu Landssímans.

(Forseti (HBl): Ég vil taka fram að það á að segja hæstv. ráðherra.)