Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:10:20 (185)

1999-06-14 15:10:20# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:10]

Árni Steinar Jóhannsson:

Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er þá hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð varað við þeim hraða sem hæstv. ríkisstjórn er á varðandi einkavæðingu stórra fyrirtækja. Sum af þessum fyrirtækjum hafa þjónað þeim tilgangi að vera til jöfnuðar í þessu samfélagi. Þar nægir að nefna símann og póstinn, jafnvel að vissu leyti bankana.

Ég vil í framhaldi af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar taka fram að ég tel vont fyrir Ísland að gefa þann tón að einkavæða nánast öll fyrirtæki ríkisins sem einhvers virði eru. Það er vont fyrir landið að því leyti að þannig er gefinn tónn til svokallaðra athafnamanna eða peningamanna, að þeim nægi að bíða og sjá hvenær stórfyrirtæki ríkisins fari á markað. Það letur þessa svokölluðu athafnamenn, sem ég nota bene ber fulla virðingu fyrir, til að fara í nýjar greinar í þessu samfélagi. Það er nægilegt fyrir þá að bíða og sjá: Hvenær fer bankinn á markað? Hvenær fer síminn á markað o.s.frv.?

Þetta er vont fyrir landið. Athafnamenn eiga að finna nýjan vettvang til þess að hasla sér völl á. Við eigum myndarlega reknar ríkisstofnanir sem, eins og ég benti á áðan, eru að vissu leyti notaðar til að framkalla jöfnuð í samfélaginu og ber að standa vörð um þær.

Það er svo komið, jafnvel í bankakerfinu, að það er ekki hægt að fá lán, fyrirgreiðslu svokallaða, út á land, jafnvel þótt um afskrifaðar eignir sé að ræða. Ef menn eiga þær og vilja fá lán í einkabankanum þá er sagt að þær séu ekki lánshæfar, að ekki sé veð fyrir hendi. Það er ekki talið áhættunnar virði að lána.

Við höfum varað við bollaleggingum um einkavæðingu pósts og síma. Í öðru orðinu segja menn að það eigi að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins með því að auka hugbúnaðarþjónustu og hugbúnaðarvinnu, tölvuvæða og jafnvel að ganga menntaveginn á netinu. Það er ekki sjálfgefið að einkafyrirtæki hafi áhuga á að fara með kapla upp um þrönga strjálbýla dali. Við getum hins vegar gert það með fyrirtæki sem er í eigu ríkisins og rekið af okkur, sem lýtur pólitískum ákvörðunum.

Það eru aðeins þessir þættir sem ég vildi árétta í framhaldi af því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sagt. Ég tel að það sem ég nefndi með athafnamennina sé landinu ákaflega óhagstætt. Athafnamenn eiga ekki að ganga að því vísu að þeir geti um næstu ár föndrað við að koma saman kaupum á því sem við eigum og er í fullum rekstri. Það á að virkja athafnamenn til að fara í nýja þætti, inn á ný svið til uppbyggingar fyrir þetta land.