Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:25:00 (188)

1999-06-14 15:25:00# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:25]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef þær tölur heldur ekki á hraðbergi. Beinn hlutur ríkisins í því fyrirtæki er mjög lítill, þó kannski einhver í gegnum Vegagerðina. Hins vegar koma þarna að fyrirtæki með eignaraðild ríkisins, en þau koma að þessu auðvitað í sínu hlutverki sem atvinnufyrirtæki.

Ég held að við í þessum sal og allir sem gefa sig að stjórnmálum hafi þá skyldu að reyna að beita sér fyrir skynsamlegri nýtingu opinberra fjármuna og það er sameiginlegt verkefni okkar á Alþingi að reyna að tryggja að nýting þeirra sé sem best. Ég lít á þetta mál, einkaframkvæmd, sem lið í því að fá sem mest út úr skattpeningi almennings og að það sé skammsýni að hafna slíkum möguleika fyrir fram eins og mér heyrist hv. þm. Ögmundur Jónasson gera bæði nú og fyrr í umræðum, á fyrra þingi, þegar þessi mál hafa verið til umræðu.

Hins vegar gilda engar trúarsetningar í þessu. Menn verða að taka afstöðu í hverju máli fyrir sig í rauninni og vega og meta hvar þessi aðferð, einkaframkvæmd, á við og hvar á hún ekki við. Og að því er varðar einkavæðingu sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni almennt talað, þá tel ég að hún eigi rétt á sér þar sem um er að ræða fyrirtæki í atvinnurekstri, einkum fyrirtæki sem eru í samkeppni við einkaaðila í atvinnurekstrinum. Það er allt annað mál þegar um er að ræða sérstakar sérhæfðar stofnanir í eigu ríkisins sem eru að veita umönnunarþjónustu eða þess háttar eins og við þekkjum.

Ég vil geta þess að hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var samgrh. þegar Hvalfjarðargöngin fóru fyrst af stað og á heiður skilinn fyrir aðild sína að því máli. Mér kemur það því mjög á óvart ef það er afstaða þingflokks hans hér á Alþingi að slík framkvæmd sé í eðli sínu, eins og hún var þar undirbúin, ekki af hinu góða.