Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:29:21 (190)

1999-06-14 15:29:21# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:29]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að það sé lykilatriði í þessu hvernig þessum prósentum er skipt hjá þeim sem eru aðilar að Speli hf. Aðalatriðið er aðferðin sem var beitt og hún byggðist á hugmyndafræði einkaframkvæmdar. Og félagið, Spölur, sem var stofnað sem hlutafélag er sjálft ábyrgt fyrir öllum sínum skuldbindingum. Aðild Vegagerðarinnar að þessu máli var fyrst og fremst í gegnum vegtengingarnar sem liggja að göngunum. Fjármögnunin í gegnum hinn erlenda aðila, John Hancock vestur í Bandaríkjunum sem lánaði langtímapeningana, og lífeyrissjóðina sem lánuðu skammtímafjármuni og aðra en það var auðvitað í nafni félagsins sjálfs.

En það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er það að hugmyndin sem slík er náskyld hugmyndinni um einkaframkvæmd. Þetta er eitt afbrigði af því og hún hefur sýnt sig að virka mjög vel í þessu tilfelli. Nú er illt í efni að ýmsir þingmenn sem þekkja mál betur en ég skuli ekki vera hér inni. Landsbankinn t.d. kom að upphaflegri lánsfjármögnun á sínum tíma fyrir þetta fyrirtæki en ég efast ekki um að Spölur hf. mun standa mjög vel í skilum með allar sínar skuldbindingar og reyndar eru horfur á því að fyrirtækið geti gert það mun fyrr en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.

Aðalatriðið í sambandi við þessa umræðu og tillöguna sem hér er til umræðu er að þarna er dæmi um verk sem hefur verið unnið undir þessum formerkjum og það hefur heppnast mjög vel. Ég held að allir séu sammála um það og þá skiptir ekki öllu máli hver á hve miklar prósentur í þessu félagi vegna þess að það er ekki málið heldur hugmyndin og hugmyndafræðin á bak við þetta verkefni sem svona vel hefur gengið.