Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:33:46 (192)

1999-06-14 15:33:46# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá þingmanninum að ekki er hægt að svara öllu sem fram kemur í stuttu máli. Ég vil andmæla því sem hann sagði bæði nú og í fyrstu ræðu sinni um viðskipti ríkisins út af SR-mjöli. Þær upplýsingar sem ég lagði fram í þinginu á síðasta þingi skýra það mál þegar tekið er tillit til þess viðbótarsvars sem ég lét útbýta hér eftir að hafa farið betur ofan í saumana á þessum útreikningum. Það fyrirtæki var í molum. Það fyrirtæki skuldaði gríðarlegar upphæðir. Þá var niðurstaða ríkisstjórnarinnar, og til þess fékkst heimild á Alþingi, að ríkið yfirtók eitthvað af þeim skuldum til að gera það fyrirtæki markaðshæft þó svo að það væri mun minna en ýmsir töldu að þyrfti að gera. Síðan hefur það fyrirtæki gert sjálft sig að stórveldi á þeim markaði sem betur fer. Það hefur tekist vel til. Það hefur að vísu notið góðs af ágætum loðnuvertíðum og þess háttar eins og önnur fyrirtæki í þessari grein en allt þetta tal um að þarna hafi verið um að ræða sérstök vildarkjör er sem betur fer ekki á rökum reist.

Ég get ekki tekið afstöðu til þeirra ásakana sem þingmaðurinn bar fram um Landssímann eða önnur fyrirtæki sem hann nefndi. Ég þekki ekki þau tilvik. Ég held hins vegar að sameiginlegt markmið manna sem ég lýsti áðan hljóti að vera að reyna að fá sem mest út úr skattpeningum borgaranna til þess að geta veitt borgurunum betri þjónustu, annaðhvort jafngóða fyrir minni kostnað eða betri fyrir sama kostnað. Það er markmiðið sem við hljótum að standa frammi fyrir og að mínum dómi er ekki hægt að hafna fyrir fram nokkrum möguleikum eins og einkaframkvæmdinni jafnvel þó að fyrir liggi einhverjar skýrslur frá Bretlandi sem menn hafa undir höndum þar sem menn finna annmarka á þessu. Ef þeir eru fyrir hendi reynum við að sneiða hjá þeim á Íslandi.