Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:35:58 (193)

1999-06-14 15:35:58# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:35]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er náttúrlega fyrst að skoða staðreyndir máls og vera reiðubúinn að setjast yfir upplýsingarnar vegna þess að gerð hefur verið á því mjög ítarleg rannsókn hvernig til hefur tekist.

Aðeins varðandi SR-mjöl, fyrst hæstv. ráðherra tekur þar upp þráðinn, þá minni ég á að það fyrirtæki var selt á 725 millj. kr. en ríkið borgaði með fyrirtækinu 632 millj. kr., fyrirtæki sem er núna metið á tæpa 4 milljarða kr.

Hæstv. fjmrh. sagði að það hefði þurft að leggja til með fyrirtækinu til að gera það markaðshæft. Ég man ekki betur en að nýir eigendur SR-mjöls borguðu sér arð á fyrsta árinu. Ég er ekki með tölur um hve miklar upphæðir var að ræða en það voru umtalsverðar upphæðir. Ég hélt sannast sagna að enginn deildi um þetta og þess vegna kom mér á óvart núna þegar Áburðarverksmiðjan var seld að þar voru aftur sömu handarbakavinnubrögðin á ferðinni. Okkur var sagt að andvirði fyrirtækisins hefði verið rúmar 1.200 millj. og nokkrum dögum seinna kemur í ljós að innan stokks eru birgðir sem eru metnar á 750 millj. fyrir utan 19 millj. í sjóði. Aftur eina ferðina enn eru almannaeignir færðar nýjum eigendum á silfurfati.