Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:38:00 (194)

1999-06-14 15:38:00# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í sambandi við SR-mjöl vísa eingöngu til þess viðbótarsvars sem útbýtt var á síðasta þingi, þskj. 431 á síðasta þingi. Þar kemur fram hvernig komið var fyrir SR-mjöli áður en ríkið gat losnað við það. Löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins varaði sérstaklega við slæmri fjárhagsstöðu og fyrir lágu viðvaranir frá Ríkisendurskoðun út af sama máli. Alþingi veitti heimild sína til þess að skuldir væru yfirteknar, allt að 500 millj., og sú heimild var notuð að hluta til. Lífeyrisskuldbindingarnar sem eru innifaldar í tölunni sem hv. þm. nefndi, rúmlega 600 millj., voru að sjálfsögðu vegna starfsmanna ríkisins hjá SR-mjöli, hjá Síldarverksmiðjum ríkisins réttara sagt, á meðan þær voru í eigu ríkisins en ekki vegna nýja aðilans. Því var rökrétt að ríkið bæri ábyrgð á þeim þætti málsins.

Að því er varðar Áburðarverksmiðjuna held ég að gott verð hafi fengist fyrir hana. Leitað var tilboða í þetta fyrirtæki fyrir um það bil einu og hálfu ári eða tveimur árum. Þá komu miklu lægri tilboð. Núna komu tvö tilboð í fyrirtækið sem voru á líku róli og ég tel að ríkið, sem fyrrverandi eigandi þess, hafi mátt mjög vel við þetta verð una og það var ánægjuefni fyrir mig að taka við þeirri ávísun sem þarna var innt af hendi þegar þessi viðskipti áttu sér stað. Ég treysti þeim sem keyptu þetta fyrirtæki til þess að reka það áfram og fitja upp á nýjungum og ýmsum öðrum atriðum eigendum, starfsmönnum og viðskiptamönnum þessa fyrirtækis til heilla því ég er viss um að þeir menn hafa fullan skilning á því að vel rekið fyrirtæki starfar ekki bara í þágu eigenda sinna heldur líka viðskiptavina og ekki síst starfsmanna.