Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:40:08 (195)

1999-06-14 15:40:08# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það séu mikil öfugmæli hjá hæstv. fjmrh. að tillagan sé óþörf. Þvert á móti er hún mjög þörf og orðaskipti hér m.a. rökstyðja það. Það er umhugsunarefni þegar betur er að gáð að menn skyldu ekki einmitt hefja þessa einkavæðingarlotu sem hér hefur gengið yfir í þjóðfélaginu eins og hvert annað fár undanfarin ár, einmitt á starfi af þessu tagi. Þá var rétti tíminn til að kalla menn saman, setjast niður og fara rækilega í gegnum það hvert ætti þá að vera hlutverk hvers og eins í þessum efnum og láta t.d. á það reyna hvort hægt væri að ná meiri, svo ég segi nú ekki algerri en þó ekki væri nema meiri, pólitískri samstöðu um það hvert eigi að vera hlutverk ríkisins, hvert eigi að vera hlutverk sveitarfélaganna og hvað félagasamtök og einkaaðilar geti best leyst af hendi. Þetta var aldrei gert heldur var málið rekið áfram í trúarbragðastíl á flokkspólitískum forsendum og meira og minna klúðrað. Það liggur fyrir af því ofstæki sem er viðurkennt að hefur ráðið för meira og minna í þessum efnum og frægast varð auðvitað í Bretlandi með hörmulegum afleiðingum þar.

Sá er munur á Bretum og okkur, hingað til a.m.k., að þeir þora að viðurkenna mistök. Meira að segja gallharðir thatcheristar í Bretlandi segja: ,,Já, þetta gekk of langt. Við gengum of langt. Ofstækið var of mikið. Þegar við vorum komin út í að einkavæða veitur og einokunarfyrirtæki, sem hafa eðli málsins samkvæmt einokun og eru dæmd til þess af efnislegum ástæðum vegna þess að þau eiga einu vatnsleiðsluna inn í húsið hjá þér eða eina rafmagnsspottann inn í húsið hjá þér, þá voru menn komnir út í ógöngur.`` Þetta viðurkenna thatcheristar en ekki þeir í Sjálfstfl. uppi á Íslandi. Þeir eru of stórir upp á sig til þess að viðurkenna yfir höfuð á sig mistök.

Talið er að einn formaður þeirra hafi einu sinni fyrr á öldinni viðurkennt ein mistök. Það var þegar Ólafur Thors viðurkenndi að það hefðu verið mistök að vera á móti vökulögunum. En það er í síðasta skiptið sem Sjálfstfl. hefur játað á sig mistök í íslenskri pólitík svo ég viti til og ætli það séu ekki að verða ein 50 ár síðan. Það fer að verða kominn tími til að Sjálfstfl. stígi með annan fótinn niður af stallinum og viðurkenni að hann sé ekki óskeikull, svo að ekki sé nú minnst á Framsfl. sem náttúrlega hefur það fram yfir Sjálfstfl. í þroska að hann viðurkennir talsvert oftar á sig mistök og er það vel. T.d. viðurkenndi Framsfl. núna í aðdraganda kosningabaráttunnar að hann hefði gleymt barnafólkinu.

Nei, staðreyndin er sú að mikil þörf er fyrir starf af þessu tagi og ég vil ekki útiloka að það mætti ná miklu meiri samstöðu um þessa hluti ef menn væru ekki of stórir upp á sig til þess að setjast niður og ræða málin. Það gæti t.d. komið út úr slíku starfi að í aðalatriðum væri hægt að ná samstöðu um að láta velferðarkerfið í friði, láta velferðarþjónustuna og velferðarkerfið í friði fyrir einkavæðingarfárinu en gera þá frekar breytingar á hlutverki ríkisins annars staðar, t.d. í því sem eftir er af fyrirtækjarekstri og jafnvel í fjármálastofnunum. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef aldrei hafnað því að fara yfir og endurskoða verkaskiptingu aðila í þjóðfélaginu. Það er síður en svo. Og ég geri mikinn greinarmun á því hvort í hlut eiga einhverjar verksmiðjur, þar sem aðrar slíkar eru hvort sem er reknar af fjölmörgum aðilum í þjóðfélaginu, eða ferðaskrifstofa eða eitthvað því um líkt sem ríkið var hér einu sinni að reka, eða undirstöðuþjónusta í velferðarkerfinu eða almenningsþjónustustofnanir eins og Landssíminn og aðrar slíkar. Þar er ólíku saman að jafna og miklu meira í húfi og afdrifaríkara ef illa tekst til.

[15:45]

Af því að aðeins var farið út í að ræða einkafjármögnun, og hæstv. fjmrh. nefndi Hvalfjarðargöngin sem dæmi, þá er hann á verulegum villigötum þar að taka það sem dæmi um slíkt. Þar er í grundvallaratriðum um allt öðruvísi mál að ræða en t.d. útboð á einu stykki hjúkrunarheimili í 25 ár. Hvalfjarðargöngin voru samgönguframkvæmd sem lá fyrir að yrðu alfarið fjármögnuð með vegtollum. Í raun og veru var eingöngu um það að ræða að rétturinn til tolltökunnar er færður til rekstraraðila ganganna. Og hverjir eru það? Það er fyrirtæki sem tvö stór ríkisfyrirtæki og eitt stórt sveitarfélag stofnuðu og með heilmikilli þátttöku ríkisins á allan hátt. Í reynd var framkvæmdin hvort sem er meira og minna opinber þannig að það er himinn og haf á milli ef því er á einhvern hátt líkt við hreinan einkarekstur, t.d. á velferðarstofnunum eða skólum.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að umræðan hér og aðferðafræðin öll hefur verið mjög vanþroskuð. Það hefur t.d. einkennt hana, sem er ákaflega dapurlegt og þess sá síðast stað í stefnuræðu hæstv. forsrh., að jarðvegurinn er undirbúinn með stanslausum rógi um allt sem félagslegt er og allan ríkisrekstur. Ævinlega er talið nauðsynlegt af trúboðunum að sparka í allt ríkisrekið og allt sveitarfélagarekið í leiðinni til þess að undirbúa jarðveginn fyrir einkavinavæðinguna. Þetta er ævinlega gert og það er látið eins og þarna séu bara náttúrulögmálin sjálf að verki, að rekstur sé alltaf verri ef ríki eða sveitarfélög koma nálægt honum en í höndum hinna óskeikulu einkaaðila, eða hvað. Eru þeir þá svona óskeikulir í rekstri sínum að þeir geri ævinlega betur en það sem er með einhverjum hætti félagslega tengt?

Ég veit ekki betur en að mörg glæsilegustu gjaldþrot Íslandssögunnar séu öll úr einkarekstri og að ekki þurfi að hamast á ríkinu með þeim hætti sem þarna er gert. Það er ósanngjarnt og það er ósæmilegt hvernig heilir stjórnmálaflokkar hafa komist upp með að haga málflutningi sínum í þessum efnum. Ég held að þetta sé eins misjafnt og mennirnir eru margir. Veldur hver á heldur. Það er bæði til lélegur ríkisrekstur og góður ríkisrekstur, lélegur rekstur hjá sveitarfélögum og góður rekstur hjá sveitarfélögum. Sannarlega er misjafn rekstur í höndum einkaaðila enda misjafn sauður þar í mörgu fé eins og kunnugt er. Ég veit ekki betur en að þrátt fyrir allt sé það þannig að einkaaðilana hungri ekki í neitt meira en einmitt ýmis myndarleg fyrirtæki sem ríkið hefur byggt upp eða sveitarfélög hafa byggt upp og oft og tíðum mikil græðgi verið í að komast í þau.

Svo ættu menn aðeins að lokum, herra forseti, að velta því fyrir sér að spurningin um einkavæðingu, einkafjármögnun eða hlutverk hvers um sig í samfélaginu er í raun hluti af miklu stærri mynd þar sem er spurningin um grundvallarviðhorf okkar til þess samfélags sem við viljum búa í. Ég held að það ætti að senda þessa snillinga, einkavæðingarpostulana, í ferð til Nýja-Sjálands og ég skal vera leiðsögumaður, ég er sæmilega kunnugur á þeim slóðum, og kynna þeim ... (Gripið fram í: Ég get það líka.) Þingmaðurinn hefur ekki búið þar í heilt ár eins og ræðumaður. Kynna þeim t.d. hvernig þetta hefur leikið lífskjör almennings í Nýja-Sjálandi, hvernig er að búa í nýsjálenskum sveitum eftir að einkavæðingarfárið gekk þar yfir en þar er oft enga þjónustu að hafa oft á mörg hundruð ferkílómetra svæði. Þjónustu sem áður var í pósthúsum og símstöðvum verða menn nú að sækja oft um mörg hundruð kílómetra veg í stærstu staðina. Af hverju? Af því að einkaaðilinn er ekkert að ómaka sig við það að halda uppi þjónustu úti í hinum strjálu byggðum Nýja-Sjálands. Hvernig á t.d. gamla fólkið, sem fékk ellilífeyrinn sinn greiddan út í gegnum pósthúsin, að bregðast við núna þegar engin pósthús eru lengur nema með mörg hundruð kílómetra millibili? Það er bara því miður, þetta er svona og menn verða að éta það sem úti frýs. Það eru því ekki eingöngu mjög bjartar hliðar á þessu dæmi. Það eru líka mjög neikvæðar hliðar þegar ofstækið hefur borið menn svo ofurliði að þeir hafa farið út í að einkavæða og skera niður eða gefa lönd og leið þá almannaþjónustu sem ýmsar slíkar stofnanir, þjónustustofnanir sem höfðu það sem meginmarkmið að veita þjónustu en ekki græða, byggðu upp. Þetta er þegar orðið svona á Íslandi. Á Íslandi er ekki hægt að fá framlengingarsnúru á mörg hundruð kílómetra svæðum vegna þess að Landssíminn er hættur að veita þar þjónustu. Hann er farinn, búinn. Pósturinn er eftir. Það á að heita svo að hann sé umboðsmaður fyrir Landssímann en hann heldur engan lager. Hann er ekki með nein tæki þannig að ef menn vilja framlengja símann hjá sér geta þeir þurft að keyra mörg hundruð kílómetra. Það er því ekki eins og þurfi að sækja vatnið neitt yfir lækinn. Við sjáum strax í hvaða átt þetta leitar, hver tilhneigingin er þegar búið er að háeffa og byrjað að einkavæða.