Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:51:37 (197)

1999-06-14 15:51:37# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég býð hv. þm. upp á kennslustund í þessu og skal fara ítarlega yfir viðhorf mín í þessu máli á einkafundum með hv. þm. og velja stað og stund. Ég var að segja að ég gæti alveg ímyndað mér að niðurstaðan af starfi sem hefði það m.a. að markmiði að reyna að leita sem mestrar samstöðu gæti orðið málamiðlun á einhverjum þeim nótum og spurði að því: Gæti það t.d. orðið niðurstaðan að menn næðu að einhverju leyti saman um það að verja velferðarstofnanirnar og einkavæða ekki þegar um hreina einokunar- eða fákeppnisstöðu á markaði væri að ræða en í staðinn yrðu þá kannski einkavæddar áfram einhverjar fabrikkur, þær sem eftir eru í eigu ríkisins og annað því um líkt. Ég held að grundvallarmunur sé á því hvaða þjónusta á í hlut eða hvers eðlis starfsemin er sem þarna á við hverju sinni.

Einn gallinn á umræðunni og þessu fári er sá að menn hafa engan greinarmun gert á því hvað þeir voru með í höndunum og leggja þarna meira og minna allan ríkisrekstur að jöfnu eins og ekki skipti máli hvort um er að ræða einhverjar sögulegar ástæður fyrir því að einhver tiltekin verksmiðja eða verksmiðjuhópur er í eigu ríkisins sem eru kannski engin sérstök rök orðin fyrir í dag. Þetta er kannski barn þess tíma að enginn hafði fjármagn til að ráðast í fjárfreka uppbyggingu í mjöliðnaði nema ríkið á sínum tíma en það á ekki við í dag. Þá erum við í grundvallaratriðum með aðra stöðu uppi en þegar kemur aftur að hinni viðkvæmu velferðarþjónustu.

Ég veit ekki hvort ég átti að taka þetta sem hrós þegar hv. þm. taldi að aðeins hefði örlað á nýjum skilningi í máli mínu. Það er mögulegt að líta á þetta sem hrós en það er þá mjög lítið hrós úr því að það örlar bara á nýjum skilningi. Það hefði þurft að gera aðeins betur en bara örla á honum til þess að ég hefði tekið þetta sem beinlínis hrós. En ég viðurkenni þó að það er ánægjulegt að heyra þetta úr munni hv. þm.

Ég held að það skipti öllu máli hér að menn geti rætt þetta fordómalaust og ég er alveg sannfærður um að nefnd af þessu tagi mundi gera gagn þó ekki væri nema til þess að upplýsa og breikka umræðuna um þessi mál.