Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 15:56:17 (199)

1999-06-14 15:56:17# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[15:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú kannast ég við hv. þm. Hann hefur lengi haft þá íþrótt hér að taka þingmenn upp og flokka og reyna að sjá um það að túlka stefnu þeirra og hvert þeir séu að þróast. Ég minnist langra orðaskipta hv. þm. við fulltrúa Kvennalistans á þingi um sjávarútvegsmál svo árum skipti. Þá æfði hv. þm. Össur Skarphéðinsson sig í því að taka upp Kvennalistann í sjávarútvegsmálum og þrástagast á því hvað þessi byggðatenging eða byggðakvóti Kvennalistans þýddi út og suður o.s.frv. Mér heyrðist votta fyrir þessu á dögunum þegar hv. þm. var farinn að leggja krossapróf fyrir hv. þm. Frjálslynda flokksins að þar væri fundinn arftaki Kvennalistans fyrir hv. þm. til að æfa sig á. Nú hefur hann snúið sér sérstaklega að okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og viðhorfum okkar til einkavæðingar.

Við erum að sinna þessu máli, m.a með þessum tillöguflutningi, og ég vona að hv. þm. meti það. Ég er ekki mikill einkavæðingarsinni en ég segi: Ég geri mikinn greinarmun á því hvað í hlut á og ég útiloka engin skoðanaskipti um þessi mál nema síður sé. Þau eru af hinu góða. Ég gagnrýni þvert á móti --- og ég veit að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kemur hér alveg af fjöllum því að hún hefur búist við alveg hinu gagnstæða. Auðvitað er það af hinu góða að menn ræði málin. Ég gagnrýni að þetta einkavæðingarfár hafi verið rekið eins og það hefur verið rekið, í trúarbragðastíl án undangenginnar umræðu um grundvallaratriði málsins eins og þau hvert eigi að vera hlutverk hvers og eins, hvernig menn ætli að sjá fyrir jöfnun í lífskjörum og aðstöðu ef menn einkavæða mikilvægar almannastofnanir eins og Landssímann eða orkukerfin. Það er stórvarasamt einmitt út frá því sjónarmiði að þá heldur ójöfnuðurinn innreið sína. Það er dæmt til að gera það og það hefur alls staðar gerst. Í fæstum tilvikum er um að ræða einkavæðingu á starfsemi þar sem nokkurt eðlilegt samkeppnisumhverfi ríkir. Þetta er allt í besta falli fákeppni ef ekki harðskrúfuð einokun. Það er þannig og menn eiga að horfast í augu við það eins það er að menn eru iðulega að fara úr öskunni í eldinn í samkeppnislegu tilliti ef þeir einkavæða mikilvæg þjónustufyrirtæki í slíku fákeppnisumhverfi. Það liggur þannig og reynslan og sporin hræða úr öllum áttum. Það er út frá þeim sjónarhóli og hinum íslenska veruleika fámennrar þjóðar í stóru landi sem eiga menn að nálgast þessi mál.